Kæri lesandi,

þetta var miklu betra í dag. Ég las 250 bls., á móti tólf blaðsíðunum í gær, og kláraði bókina í einum rykk. Þetta var eiginlega frábær glæpasaga, mér finnst mjög líklegt að ég hafi hér verið að lesa verðlaunabókina í ár. Sjáum til hvort restin af dómnefndinni reynist sammála mér.

Eftir bongóblíðuna í gær fór ég aftur út í dag eftir lesturinn. Ég hitti vin minn í miðbæ Reykjavíkur. Við fórum meira að segja út að borða! Skelltum okkur á Brewdog á Hverfisgötunni, stað sem tekur auðveldlega 50+ manns en hér var rétt staðið að öllu og ekki nema tíu gestir þar inni þegar mest lét. Við sátum við endann á tómu langborði með spritt og hanska og borðuðum fínan hamborgara og drukkum öl. Sjá mynd.

Svo laumuðum við okkur heim til hans og horfðum á nýju heimildarmyndina um Beastie Boys á Apple TV+. Hún er í leikstjórn Spike Jonze, Mike D og Adam Horowitz rekja feril BB á sviði fyrir fullum sal, í bland við myndrænt efni frá téðum ferli, og í lokin minnast þeir síns fallna vinar, Adam Yauch, þriðja Dýrasnáðans sem lést úr krabba árið 2012. Við vinirnir misstum okkur eiginlega í nostalgíu yfir þessari mynd, enda hlustuðum við mikið á Beastie Boys þegar við vorum að kynnast fyrir kvartöld síðan, þetta var mikil upprifjun á okkar tíma. Frábært kvöld, og gott að komast aðeins aftur á meðal fólks sem ég er ekki giftur eða hef feðrað.

Auðvitað kom ég svo heim og kyssti dætur mínar fyrir svefninn, og nú ætla ég að eyða því sem eftir er af þessari helgi (56 mínútur, tæknilega séð) með konunni minni.

Þar til næst.