Kæri lesandi,

veðrið, mar. Veðrið. Sól og blíða fjórða daginn í röð, heitt og notalegt. Maður gæti alveg vanist þessu, en auðvitað er það ekki í boði á þessu landi. Reyndar er spáin svona út vikuna en auðvitað er aldrei meira en vika eða tíu dagar í næsta hroðbjóð á þessari eyju norður í úthöfum. En er á meðan er og maður nýtur meðan getur.


Ég las í teiknimyndasögu í gær, einhverri Batman-sögu sem ég man ekki hvað heitir. Sofnaði út frá fyrstu blaðsíðunum, en hún lofar góðu og ég held áfram í kvöld. Reyndar er ég aðeins í lausu lofti með lesturinn, fékk þessa frelsistilfinningu eftir að ég kláraði síðustu bók dómnefndar þetta árið og leið eins og ég gæti lesið hvað sem er. Sem er alltaf raunin, en tilfinningin var góð.

Ég hef verið aðeins að hugsa um að reyna að lesa frekar klassísk meistaraverk frekar en að eltast við nýjar bækur. Ég held að ég lesi meira af nýútkomnum bókum en flestir bókaormar sem ég þekki. Það er ekkert að því, en maður er aðeins að taka meiri áhættu með nýútkomnar bækur. Ég ræð ekki við mig samt, ég pantaði mér eina klassík í gær sem kemur heim í pósti og stuttu seinna rak ég augun í skáldsögu eftir Íra sem er nýútkomin og er að fá magnaða dóma. Þá freistast ég allsvakalega. Þannig að auk ólesna bunkans í hillunum heima sýnist mér tvær svakalegar vera að bætast við. Og svo les ég Batman á iPadinum mínum frekar en að halda áfram að grynnka á bunkanum.


Annars er það helst að frétta að uppsetning á skrifstofunni heima gengur vel. Ég er búinn að panta skrifborð, það ætti að koma til landsins um mánaðamótin og ég get vonandi fengið það heim um helgina og klárað þá dæmið. Í kvöld eftir vinnu ætla ég að setja saman bókahilluna, nennti því ekki í gær, og þá bíðum við bara eftir skrifborðinu. Það styttist sem sagt í að ég hafi afdrep heima hjá mér á nýjan leik, geti jafnvel lokað að mér ef það eru læti frammi, sem er næsta öruggt nú þegar veðrið er gott og dætur mínar farnar að hitta vinkonur sínar aftur. Ég sat til dæmis í sófanum heima í gær og reyndi að vinna smá á iPad en átti erfitt með einbeitinguna af því að báðar dætur mínar hlupu inn og út úr íbúðinni með vinkonum sínum eins og þær fengju borgað fyrir það. Hasarinn var altumlykjandi.

Þessi skrifstofa verður kærkomin.


Annað hef ég varla að segja í dag. Enn hálftómur eins og í gær, lítið um pælingar á hringli í höfðinu á mér svo að svona fréttauppfærsla verður að duga. Kannski er það af því að höfuðið er fullt af sólarljósi og við vitum að djúpar pælingar þrífast betur í myrkri.

Þar til næst.