Kæri lesandi,
í morgun vaknaði ég, eins og hefur áður gerst, með lagið „The Wild Ones“ með Suede á heilanum. Mér leið eins og lagið hefði fylgt mér í gegnum draumana og þegar ég var reiðubúinn að losa svefninn sá það um að vagga mér rólega á ný inn í raunveruleikann.
Þetta lag er magnað, það hreyfir við einhverju djúpt í sálinni sem mér þykir vænt um. Slík lög eru sjaldgæf og dýrmæt. Lagið er frekar einfalt en það sem lyftir því upp á hærra plan er frábær gítarleikur Butler undir söng Anderson, og textarnir eru svo einfaldir og fallegir að mann setur hljóðan:
There’s a song playing on the radio,
sky high in the airwaves on the morning show.
And there’s a lifeline slipping as the record plays,
and as I open the blinds in my mind
I’m believing you could stay.
And oh, if you stay,
I’ll chase the rain blown fields away.
We’ll shine like the morning
and sin in the sun,
oh if you stay.
We’ll be the wild ones,
running with the dogs today.
Þvílíkt lag. Það er eitthvert sakleysi í textunum, alltaf þegar ég hlusta á þetta líður mér eins og ég sé ungur á ný og hlaupi um hverfið mitt eins og ég eigi allan heiminn, og mér líður eins og þegar ég varð fyrst ástfanginn, þegar ung stúlka rændi mig rænunni og mig sundlaði yfir fegurð hennar, eins og ég geti fryst tímann í fjórar mínútur og fjörutíu og níu sekúndur og verið eilífur.
Það er ágætis innistæða í tveimur versum og þremur viðlögum. „Oh ohh, if you stay … „
Ég skráði mig á Storytel fyrir tveimur dögum. Ég hef lengi ætlað mér þangað „inn“ en ekki getað það sökum þess að ég skráði mig upphaflega í bandarísku iTunes-búðina fyrir iPhone, þegar ég keypti mitt fyrsta símtæki hjá Eplinu og slík búð var ekki í boði á Íslandi. Ég vildi njóta sama úrvals forrita og afþreyingar og meðaljóninn vestan hafs. Svo þegar Eplabúðin bauð upp á efni hér á Íslandi tímdi ég aldrei að skipta yfir því þá hefði ég misst slatta af því sem ég hafði keypt í búð Bandaríkjanna, og því er ég enn tæknilega Kani í símanum mínum og öðrum Apple-tækjum.
Nema hvað, Storytel-forritið var ekki fáanlegt í Bandaríkjunum þegar það opnaði hér á landi með pompi og prakt fyrir tveimur árum eða svo, og því lét ég það eiga sig. Ég hef lengi hlustað á bækur á ensku með Audible-forritinu en langað til að hlusta meira á íslenskar bækur. Í vikunni datt Storytel-appið allt í einu fyrirvaralaust inn á símann minn og ég skildi ekkert af hverju, en eftir smá rannsóknarvinnu komst ég að því að konan mín hafði sótt sér það og skráð reikning fyrir okkur, og af því að við notum sama Apple-aðgang þá kom forritið sjálfkrafa inn í minn síma líka.
Þannig að ég byrjaði að hlusta. Fyrsta íslenska hljóðbókin sem ég hlustaði á í Storytel var smásagnasafnið Átta sár á samviskunni eftir Karl Ágúst Úlfsson. Það kom mér skemmtilega á óvart, ég verð að segja að ég var ekki yfir mig hrifinn af einni af átta sögum en hinar sjö voru virkilega góðar og 2-3 þeirra jafnvel alveg frábærar. Hann skrifar skemmtilega og sögurnar eiga það sameiginlegt að vera mjög frumlegar, hugmyndaríkar og ítarlega rannsakaðar af höfundi sem miðlar hér af þekkingu sinni á ýmsum efnum. Þessi bók kom út í fyrrahaust og fór ekki hátt en það er óhætt að mæla með henni. Það er líka svo gott og þægilegt að hlusta á smásögur, maður hlustar í hálftíma eða tuttugu mínútur í einu og búið, tekur svo næstu þegar næsta tækifæri gefst og fyrr en varir ertu búin/n með allar átta. Gott stöff.
Í gær byrjaði ég líka að lesa Origami Man eftir Matthew Fitzsimmons. Þetta er fimmta bókin í Gibson Vaughn-seríu Fitzsimmons, hann gefur út eina á ári um fyrrum sérsveitarmanninn, hakkarann og vitleysinginn Gibson Vaughn sem er með mínum uppáhalds persónum í spennusögum. Þetta er mögulega uppáhalds spennubókaflokkurinn minn og ég hlakka til að lesa nýja bók á hverju ári. Það er óhætt að mæla með öllum bókunum, sú fyrsta The Short Drop er sennilega enn sú besta af þeim en Fitzsimmons hefur haldið uppi háum staðli og Origami Man byrjar með látum. Ég las sjötíu blaðsíður í gær og hlakka til að halda áfram í dag.

Frábær sería.
Að lokum bárust mér gleðitíðindi í gær; skrifborðið mitt er tilbúið til afgreiðslu og verður sótt í dag. Þar með næ ég að klára litla afdrepið mitt, skrifstofuna inni í geymslu, og hlakka til að tylla mér þar niður bak við lukta hurð og geta verið einn með hugsunum mínum. Framundan er þriggja daga helgi og ég er fullur innblásturs eftir mikinn lestur og viðburðaríka daga undanfarið, þannig að hver veit hvað gerist?
Þar til næst.