Kæri lesandi,
maímánuður er mættur til starfa, og með því nýr litur efst á síðunni. Þetta er sterkur litur, áberandi, krefst athygli. Maímánuður er svolítið þannig, held ég. Fyrir það fyrsta er fyrsti maí á föstudegi í ár og þessi mánuður byrjar því á langri helgi. Hann endar líka á langri helgi, mánudagurinn fyrsti júní verður annar í hvítasunnu. Þessi mánuður bara gefur og gefur. Svo á ég stórafmæli um miðjan mánuð, byrja þá minn fimmta áratug og eftir samtöl við fjölskylduna og foreldra mína í dag er ljóst að það bíða mín einhverjar gjafir og dekur og svona. Svo er veðurspáin bara sól og blíða hér fyrir suðvestan næstu vikuna hið minnsta, eins og verið hefur síðustu vikuna. Í dag báðu foreldrar mínir einnig um „leyfi“ til að bjóða dætrum mínum með sér í bústað eftir viku, þannig að við hjónin verðum ein heima yfir helgi. Svo er ég að fara á Norðurfjörð næsta mánudag vegna vinnu, í aðeins annað sinn á ævinni. Já og svo byrja börnin loks á fullri skóla- og afþreyingardagskrá eftir helgi.
Maí, mánuðurinn sem gefur og gefur.
Ég hóf mánuðinn eins og ég lauk apríl. Í gær kláraði ég að setja upp litlu skrifstofuna inni í geymslu. Það hljómar illa að segja inni í geymslu, vissulega er þetta afdrep við hliðina á tómum ferðatöskum og aukadýnu en það er vel rúmt hérna eftir tiltektina, þessi geymsla er ansi stór og það var alltaf ljóst að hér mætti búa til aukaherbergi með smá aga og áræðni. Og nú hefur það tekist!
Í morgun fór ég svo á fætur og sneri stofunni aftur í sitt upprunalega horf. Í febrúar ákvað ég að snúa henni á rönguna, svo að segja; borðstofuborðið fór úr langsum í þversum, sjónvarpssófinn fór þar sem sjónvarpið var og öfugt. Við prófuðum þetta, gáfum því séns, en í gærkvöldi sagði ég við Lilju að ég vildi leiðrétta þessa vitleysu og hún var svo sammála mér að hún kom varla orðum að því. Hún var fegin að ég sagði það fyrst, úr því að ég átti upprunalegu hugmyndina. Hugmyndirnar hitta ekki allar í mark.
Þannig að ég sneri stofunni við í morgun. Svo fór ég í sturtu og rakaði allt nema skeggið undir nefinu. Nei, lesandi góður, þú færð ekki að sjá mynd. Svo fórum við fjölskyldan út í góða veðrið. Í kvöld átum við svo pítsu og horfðum á rómantíska gamanmynd, og nú sit ég á nýju skrifstofunni minni og velti því fyrir mér hvort ég eigi að fara að sofa eða spila tölvuleik. Hmmm, hvað myndi meðalmaður með yfirvaraskegg gera?
Þar til næst.