Kæri lesandi,
í dag, öðrum maí, á laugardegi, var áttundi í bongó. Í apríl talaði ég um að við þyrftum kannski að taka apríl í maí, en kannski er reyndin sú að við slepptum apríl bara alveg. Ekkert vor, fórum bara beint úr vetrinum í hásumar. Átta dagar í röð af snilldarveðri!
Ég fór ekki út úr húsi í dag. Ekki í eitt einasta sinn, nema til að henda rusli í tunnuna fyrir utan eða sækja vörur inn úr bíl. Þess í stað tæmdist húsið af öllu kvenfólkinu og pabbi kom í heimsókn. Saman lögðum við smá parket og festum gólflista inni hjá eldri dóttur minni. Svo setti ég upp hillurnar hennar, og þá er þetta herbergi búið. Tékk, skráð af listanum. Næsta atriði, takk.
Ég fór sem sagt ekki út úr húsi, á svona líka sólríkum degi. Ég las ekki staf í bók, horfði ekki á einn sjónvarpsþátt, borðaði lítið sem ekkert og nú sit ég seint á laugardagskvöldi í fyrsta sinn við tölvuna.
Þess í stað gerði ég hluti. Kom í verk, tékkaði af gátlista, var duglegur við að gera heimilið ögn huggulegra en það var í morgun. Ég held að það sé satt sem þeir segja, að hamingjan hlýst af því að gera hluti. Ég ætti kannski að mála á morgun eða eitthvað, en af því að ég er ég en ekki einhver annar mun ég sennilega lesa hálfa skáldsögu eða hámhorfa heila þáttaröð eða eitthvað. Og fá svo samviskubit yfir því.
Í kvöld bólar ekki á neinu samviskubiti. Bara þreyttir vöðvar og friðsælt hjarta.
Þar til næst.