Kæri lesandi,

ég hef verið á Facebook síðan sumarið 2008. Stundum fer ég inn á prófílinn minn á þeirri síðu og skruna langt, langt aftur í tímann. Þar get ég svolítið séð þróun sjálfs mín sem notanda forritsins, frá því að ég skráði mig þar inn undir hópþrýstingi á vinnustað, efins um hvað ég fengi út úr þessu, þar til ég sökk djúpt ofan í þetta og var öllum stundum þar inni. Og þar til nú, þegar ég nota forritið nánast ekki neitt. Ég hef skrifað einn status inn á Facebook síðan um jólin 2018, og sá var af illri nauðsyn því ég lét fólk vita af fótbrotinu mínu síðasta sumar.

Ég hef sömu sögu að segja af Twitter. Ég skráði mig reyndar fyrr þar inn, vorið 2008, en þá var síðan aðallega notuð af tækninördum og íþróttaunnendum svo að það eina sem maður sá þar inni var spjall um væntanlegar Apple/Google-vörur og kappleiki. Smám saman sprakk sú síða og varð að eins konar torgi fyrir alls konar raddir, hún varð pólitískari með hverju árinu þar til Bandaríkin kusu sinn fyrsta Twitter-forseta (sem notar forritið enn sem helsta vettvang fyrir áróður sinn). Í dag er Twitter meira eins og staður stöðugrar heimsendastemningar, þar fá þeir mesta athygli sem hrópa hæst og þú getur ekki hrópað hátt ef þú ert að segja eitthvað skynsamlegt og vel ígrundað. Hávaðinn skiptir öllu.

Facebook er ekki mikið skárra. Fyrir tíma samfélagsmiðla einkenndist netið af því að þar gat hver sem er búið til vefsíðu, en þú þurftir allavega að hafa lágmarksþekkingu á uppihaldi vefsíðu eða HTML-kóðun til að geta slíkt. Svo komu bloggveiturnar og auðvelduðu þetta enn frekar, nú gat hver sem er skráð sig og valið eitt af nokkrum útlitum og byrjað svo að deila lífi sínu og hugsunum. Þetta var jákvæð þróun, við vildum geta tjáð okkur á netinu og þegar Facebook gerði þetta enn auðveldara fannst okkur það ekki geta verið annað en jákvætt.

Annað kom á daginn. Vandinn við að allir fái gjallarhorn er tvenns konar; fyrrnefndur hávaði, og svo sú hryllilega uppgötvun að það hafa ekki allir eitthvað gáfulegt að segja. En það hefur ekki stoppað fólkið. Jón Gnarr komst vel að orði í viðtali sem ég las í haust og sat í mér, þar sem hann sagði að þeir óforskömmuðu og/eða þau fávísu eiga ekki í neinum vandræðum með að deila, og deila, og deila endalaust mikið, á meðan þeir sem gera kröfur til sjálfs sín og skrifa sinna, eða þeir sem þjást af einhvers konar svikaraheilkenni, eða þeir sem hryllir við þróun samfélagsmiðla, draga sig í hlé. Í stuttu máli þá missum við þær raddir sem helst þyrftu að heyrast, þær drukkna í fjölmenninu og hætta að reyna.

Ég tók ákvörðun og hef haldið mig við hana. Ég er með rúmlega þrjátíu og tvö þúsund tíst á Twitter síðustu tólf ár, en innan við hundrað af þeim hafa komið á síðasta árinu og innan við þúsund á síðustu þremur árum. Eins hef ég skrifað einn Facebook-status á síðustu átján mánuðum. Hér hef ég hins vegar skrifað 166 færslur á síðustu 186 dögum, eða um 90 þúsund orð, um allt sem á daga mína hefur drifið og allt sem velkist um í höfðinu á mér.

Mér líkar þögnin vel. Mér líkar sú tilfinning að ég sé hér aðallega að eiga samtal við sjálfan mig, og þig kæri ímyndaði lesandi, hver sem þú kannt að vera hverju sinni. En mér líkar líka sú tilhugsun að hafa hér andrými til að klára setningar áður en næsta manneskja grípur frammí, sú tilfinning að það sé ekki hlaupið beint yfir á næsta status eða næsta vídjó af því að ég voga mér að vera langorður. Þessi vefsíða er virtjúal-útgáfan af því að leggjast í grasið uppi í fjallshlíð, tyggja strá og horfa út á hafið með ekkert nema þína eigin rödd og hljóð náttúrunnar þér til samlætis. Okkur líkar öllum betur að sitja í fjallshlíð en að standa innan um öskrandi verðbréfasala á Wall Street, er það ekki annars?

Ég veit ekki hvað verður um Twitter og Facebook, nú þegar fólk virðist hafa gert sér ljóst hversu mjög þessar vefsíður hafa skemmt samfélag mannanna og vitræna þjóðfélagsumræðu. Það er efni í annan pistil. En ég veit að ég er hættur að tjá mig á torgi hávaðans, og ég sakna þess ekki neitt.

Þar til næst.