Kæri lesandi,

ég fór á Norðurfjörð. Hann er á myndinni hér fyrir ofan.

Ég stoppaði á Hólmavík, í Djúpavík og aftur á bakaleiðinni á báðum stöðum. Djúpavík er hér fyrir neðan:

Inn Djúpuvík
Út Djúpuvík

Bílferðin var stórundarleg. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef keyrt vestur á firði en í þetta sinn vorum við bæði fljótari en nokkru sinni fyrr og svifum þetta nánast eins og í draumaveröld. Ástæðan er einföld: það var varla sála á þjóðvegum landsins. Við vorum ekki á háannatíma, en engu að síður er eðlilegt að mæta reglulega bílum og þurfa stöku sinnum að þola bílalest á leið milli landshluta. Í gær mættum við svona tíu bílum á milli Mosfellsbæjar og Hólmavíkur. Án gríns. Tíu. Og við virtumst vera þeir einu sem stefndu í norðurátt.

Ísland er umhorfs eins og úr einhverri heimsendamynd, eftir hamfarirnar. Landið er tómt. Allar sjoppur lokaðar, öll bílaplön tóm, enginn á ferli. Hótelin mannlaus. Þetta var eiginlega ótrúlegt að upplifa.

Við vorum að koma yfir í Veiðileysu þegar við fengum stórgrýti undir jeppann. Grjótið reif tvær bensínleiðslur í sundur undir bílnum svo að hann gat ekki borið okkur lengra. Við rétt náðum inn í Djúpuvík áður en hann drap á sér, en við vorum aðallega þakklátir fyrir að hafa ekki hrakist af veginum og niður þverhnípt bjargið þar sem grjótið náði okkur. Við tók óvænt ævintýri þar sem hótelstýran á Hótel Djúpuvík keyrði okkur áfram til Norðurfjarðar, beið eftir okkur þar á meðan við settum upp tölvur og prentara og fórum yfir nauðsynleg málefni með starfsmanni staðarins, og lóðsaði okkur svo til baka á Djúpuvík. Þar beið okkar flutningabíll frá Hólmavík sem tók jeppann upp á pall og okkur í farþegasætin. Svo sagði hann okkur alla ævisöguna sína á meðan hann skrölti frá Djúpuvík yfir á Hólmavík. Ferðin (og ævisagan) tók um tvo tíma, en venjulega tæki þetta svona 45 mínútur.

Við vorum orðnir ansi þreyttir og tómir á því þegar við komum á Hólmavík og eftir erilsemi dagsins hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar og ætluðum aldeilis að leyfa okkur beikonborgara með öllu. En nei, þá var grillið lokað vegna gestaleysis, auðvitað, og aðeins tælensk kjúklingasúpa í boði. Við létum okkur hafa það, aðframkomnir af svengd, borguðum 1490 kr. hvor fyrir súpuskálina sem reyndist vera svo vond súpa að ég er hættur að borða bæði súpu og kjúkling. Og hata Tæland. Mæli ekki með súpunni.

Svo biðum við eftir að farið okkar kæmi, samstarfsaðili hafði komið úr bænum til að sækja okkur. Ég skilaði mér loks heim um áttaleytið í gær eftir fjórtán tíma ferðalag, um 700 kílómetra, þar af svona ellefu og hálfan tíma sem farþegi í einum af fjórum bílum … og beint á húsfund. Ég hafði gleymt að það átti að vera fundur húsfélags í gærkvöldi, og varð að taka þátt í honum.

Bugunin var svo mikil að ég skreið inn og sofnaði með yngri dóttur minni upp úr níu, strax að fundi loknum, og hef verið eins og hálfgerður draugur í dag. En þetta var ævintýri, saga að segja frá. Oft hef ég farið vestur á firði (eða norður í land, eftir því hvernig þú lítur á strandirnar) en sjaldan lent í sömu hremmingum og í gær.


Að því sögðu þá var gott og gaman að komast úr bænum, úr daglegu rútínunni og upplifa eitthvað annað. Það hefur ekki gerst oft síðustu tvo mánuði og þótt þreyttur sé væri ég alveg til í að renna aftur út á land á morgun ef mér byðist það.

Hvernig fallbeygir maður annars Djúpavík? Hér er Djúpa, um Djúpu? Eða er það Djúpavík alla leið niður listann? Spyr sá sem ekki veit.

Þar til næst.