Kæri lesandi,

það er ekki alltaf auðvelt að uppfæra þessa síðu. Flesta daga vellur bullið frekar auðveldlega upp úr mér, hvort sem ég er að skrifa bók um daga eða lýsa skoðunum öfgamanns. Stundum kemur fyrir að ég skrifa loddarabréf en oftast eru þetta glósur af jaðarveru samfélagsins.

Suma daga sest ég nokkrum sinnum við tölvuna og finn ekkert. Tómir vasar. Þá stend ég upp og geri eitthvað annað, prófa svo seinna … og aftur, ekkert. Þannig hefur dagurinn í dag verið. Þetta er þriðja tilraun til að skrifa eitthvað af viti hér inn, þriðja skiptið sem ég stofna nýja færslu og stari svo á blikkásinn á auða skjánum.

Neyðarhnappurinn sem ég á, og nýti mér á stundum eins og núna, er að minnast ráða Billy Corgan. Hann lenti einu sinni í ritstíflu, gat ekki samið fleiri lög fyrir Smashing Pumpkins, uns hann brá á það ráð að semja lag um ritstíflu („Apples + Oranjes“ af plötunni Adore). Hér sit ég því og lýsi því hvernig ég hef frá engu að segja.

Það er betra en ekkert, ekki satt? Magn umfram gæði? Tilgangur síðunnar er að skrifa sem oftast, helst daglega. Ég gæti alveg uppfært einu sinni í viku og haft það magnaðan pistil í hvert skipti, en þá gæti ég alveg eins birt það á einhverjum víðlesnari fjölmiðli. Hér skrifa ég í þeirri trú að margt smátt geri eitt stórt. Aðeins tíminn leiðir í ljós hvort ég hef rétt fyrir mér.

Þar til næst.