Kæri lesandi,

enn einn dagurinn með bongóblíðu í dag. Fór ég í göngutúr? Nei. Nennti því ekki. Þannig er það bara.

Dæturnar fóru með ömmu og afa í bústað síðdegis. Við erum barnlaus í tvo sólarhringa. Við fögnuðum því með því að … elda ekki kvöldmat, þegja löngum stundum (saman, en án orða), fara á klósettið án þess að vera trufluð, horfa á heila kvikmynd án þess að þurfa að stoppa í sífellu. Og svo fór Lilja inn að sofa án þess að vera elt upp í hjónarúm af andvaka barni á meðan ég settist, ótruflaður inn á skrifstofu.

Þetta hljómar ægilega normcore, ég veit. En trúið mér, þetta er himneskt. Að eiga börn hefur verið ótrúlegasta lífsreynsla ævi minnar og gefur af sér á hverjum degi. En, lesandi kær, tveir sólarhringar á ári, ég bið ekki um mikið.


Ég kláraði þáttaröð 2 af After Life með Ricky Gervais á Netflix. Þetta er virkilega gott efni. Svona helmingurinn af hverjum þætti er bara Gervais (eða „Tony“ eins og hann heitir í þáttunum) að labba um með hundinum sínum. Hinn helmingurinn er mestmegnis hann að tala um sorgina og hvað hann saknar konu sinnar við fólkið í lífi sínu.

Þetta hljómar ómögulega en virkar. Það er einhver falleg einlægni í þessu, Gervais hittir á rétta nótu hérna. Svo er þetta svo augljóslega skrifað af manneskju (Gervais skrifar) sem þekkir það kviksyndi sem depurð er af eigin reynslu. Þetta hittir bara í mark, einhvern veginn. Ég myndi ekki mæla með þessum þáttum fyrir alla, en ég fílaði.

Á morgun ætlum við að halda áfram að fagna barnleysinu með því að taka til í garðinum. Ég var ekki alltaf svona villtur, skal ég segja ykkur.

Þar til næst.