Kæri lesandi,

vandinn við að skrifa á þessa síðu á kvöldin er að stundum er maður við gleðinnar dyr og ekki í ástandi til að blogga blogg. Það gerðist í gær, og því engin færsla. So it goes.

Við Lilja höfum haft það ansi gott í barnaleysinu. Við höfum horft á bíómyndir án truflunar, eldað kryddaðan mat sem stelpurnar vilja allajafna ekki borða, drukkið vín og rætt ýmis málefni fullum rómi í stofunni án þess að hafa áhyggjur af litlum eyrum með langdrægni.

Svo fórum við út á meðal fólks í gær. Fyrst fór ég í Sorpu með nágranna okkar, við vorum að henda trjágreinum eftir runnaklippingar. Það var biðröð í Sorpu, en þetta reddaðist allt og fólk sýnir bæði biðlund og tillitssemi. Svo fórum við Lilja í Kringluna að leita að nokkrum hlutum. Við biðum í allt of langri biðröð við ísbúðina Huppu en þar virti fólk fjarlægðina, svo gengum við um Kringluna og fórum inn í stöku búðir. Sumar búðir voru mjög strangar á fjöldanum og hleyptu inn í hollum, aðrar virtust ekkert vera að pæla í þessu. En fólk virtist almennt vera með á nótunum, ég sá ekki betur en að samfélagssáttmáli Þórólfs, Víðis og Ölmu haldi velli. Það er vel.

Í dag ætla ég að vera eins latur og ég mögulega get. Stelpurnar koma heim úr bústað síðdegis en þangað til finnst mér líklegt að ég sitji við lestur. Ég á aðeins 90 blaðsíður eftir af Origami Man eftir Matthew FitzSimmons og mér liggur á að klára. Best að koma mér að verki.

Þar til næst.