Kæri lesandi,

það er einhver grámygla í loftinu hér suður með sjó í dag. Mikill mánudagur í gangi hjá veðrinu. Sólin skín, en nær einhvern veginn ekki alveg í gegn. Vindar blása og húsið er reglulega piprað með þunnum regnúða. Þetta hefur oft verið verra, en það er ekki bongó.

Stelpurnar komu heim úr bústað í gær með blómvönd handa móður sinni, enda mæðradagur í gær. Hún var mjög glöð að fá blóm, enn glaðari að fá stelpurnar sínar heim eins og ég reyndar líka. Tveggja daga fjarvera var alveg passleg. Þær komu glaðar heim en sú yngri fór reyndar beint út að hjóla með vinum sínum, svo slettist eitthvað upp á vinskapinn og hún kom grátandi heim og reyndist mjög viðkvæm og pirruð það sem eftir lifði dags. Þannig að seinni hluti sunnudags fór svolítið í að hlúa að henni, dekra við og hafa ofan af fyrir. Lúxusvandamál fyrir foreldra sem höfðu ekki séð barnið í tvo sólarhringa.


Ég kláraði Origami Man eftir Matthew FitzSimmons um helgina. Hún er feykisterk, eins og venjulega hefur FitzSimmons sterk tök á spennandi og frumlegri fléttu og gestapersónur bókarinnar voru spennandi og áhugaverðar. Helst finnst mér há bókinni það sama og háði þeirri síðustu, það er að þessi dvöl teymis Gibson Vaughn (yfirmaðurinn George Abe, sem stýrir úr fjarlægð, hin beinskeytta Jenn Charles og fyrrum löggan Dan Hendricks) hefur rænt þau aðeins sinni persónuþróun. Mér fannst ég hreinlega ekki fá nóg af þeim í þessum tveimur bókum, eins og þetta voru sterkar persónur í fyrstu þremur bókunum.

En, nú virðist teymið loks ætla að ljúka útlegð sinni frá Bandaríkjunum og ég fagna því. Þau eiga öll ýmis óleyst mál í heimalandinu og ég er spenntur að sjá hvernig endurkoman fer. Ég treysti FitzSimmons til að flétta eina bestu spennusögu ársins á hverju ári, hann hefur jú enda gert það fimm ár í röð.

Annars er það helst í fréttum að ég er að verða búinn að fylla leskortið fyrir sumarið. Eins og venjulega get ég aldrei setið á mér og hef pantað fullt af bókum til landsins, auk þess sem ég er með tvær á kantinum heima sem bíða lesturs. Þá er ég að bíða eftir að danska spennusagan Þerapistinn komi út, ég er svolítið spenntur fyrir henni og hef heyrt góða hluti.

Listinn yfir bækur sem ég ætla að lesa er svona:

  • Þerapistinn e. Helene Flood
  • The Glass Hotel e. Emily St. John Mandel
  • Time To Hunt e. Stephen Hunter
  • A Simple Plan e. Scott Smith
  • Tigana e. Guy Gavriel Kay
  • The Law of Lines e. Hye-Young Pyun
  • The King of Crows e. Russell Day

Þetta ætti að halda mér næstu tvo mánuði, fyrst mér hefur tekist að hægja á lestrinum frá því sem var. Tvær af þessum bókum eru doðrantar, Tigana er klassísk fantasía sem þykir meistaraverk og The King of Crows er ný, óvenjuleg spennusaga sem hefur verið að fá frábæra dóma og er með vel tímasetta tilvísun í heimsfaraldur og lok sóttkvíar. The Glass Hotel er ný bók eftir höfund hinnar feykigóðu og vinsælu Station Eleven. Þerapistinn er sennilega áhugaverðasta norræna spennusaga ársins og Time to Hunt er bók fjögur í Swagger-bókaflokki Stephen Hunter, sem ég hef oft mært á þessari síðu. Þá sá ég nýlega grein þar sem A Simple Plan var mærð sem ein óvæntasta spennusaga síðustu tuttugu ára vestan hafs, sem vakti áhuga minn. The Law of Lines er svo næsta saga eftir hina kóresku Pyun sem samdi hina frábæru The Hole. Ég hef beðið spenntur eftir næstu bók hennar.

Ég hef sem sagt nóg og fjölbreytt lesefni næstu vikur. Það verður svo áhugavert að rifja upp í sumarlok og sjá hversu margar af þessum bókum ég las og hversu margar óvæntar bækur tróðu sér fram fyrir á leslistanum. Maður endar einhvern veginn aldrei á að lesa bækur í þeirri röð sem maður planar.

Þar til næst.