Kæri lesandi,
undanfarið hef ég verið að hlusta á Radiohead, nánar til tekið lög af plötunni OK Computer, nánar tiltekið ýmsar útgáfur af hverju lagi. Þetta er allt til á netinu, það er hægt að finna og hlusta á hvernig hljómsveitin færði lag smám saman frá hugmynd að upptöku. Lög eins og „Let Down“ eða „Paranoid Android“ eru til í ýmsum útgáfum öðrum en þeim sem má heyra á plötunni sjálfri. Það er hollt fyrir hinn skapandi anda að hlusta á jafn virta hljómsveit og Radiohead þreifa fyrir sér í myrkrinu með jafn frábær lög og þau sem prýða OK Computer, eina bestu hljómplötu allra tíma. Þörf áminning að jafnvel færustu listamenn samtímans leggja upp með óvissu og hafa jafnvel ekki hugmynd um hvert þeir stefna fyrr en ferlið er langt komið.
Dagurinn í dag er sá áttundi frá því að fyrstu höftum samkomubanns var aflétt. Börnin hafa verið í fullu skólahaldi og við tómstundaiðju, leikið sér við vini sína og lært heima á víxl. Dætur mínar þvo sér um hendur fyrir og eftir, óumbeðnar eins og þær hafi aldrei gert annað. Fólki fjölgar í verslunum, umferð eykst, hræðslan minnkar. Í gær voru enn á ný engin ný smit staðfest og nú eru aðeins átján virk smit í landinu. Þessu er ekki lokið, en það er gott að vita að virk smit séu svona fá. Við erum að standa okkur.
Ég talaði við heimilislækni í morgun. Erindið var ofnæmissprauta, mér hafði dottið í hug að prófa það enda er frjókornaofnæmi algjör plága sem gerir mér grikk á hverju sumri. Ég var sérstaklega slæmur í fyrrasumar og í fréttum vikunnar hafa læknar verið að vara við að það sé óvenju öflugt frjókornasumar framundan. Þannig að ég ætlaði í sprautu. Læknirinn sagði að það væri sjálfsagt, en varaði mig þó við að slík sprauta veikir í raun ónæmiskerfið svo að ég upplifi ekki jafn harkaleg viðbrögð við frjókornum, en um leið opnar það rifu á dyrnar fyrir öðrum sýklum og veirum, þar á meðal kórónuveirunni. Ég vó þá áhættu á móti frjókornabölinu og tók skyndiákvörðun; hér verður engin sprauta í sumar heldur tek ég mín lyf samviskusamlega á hverjum degi og læt mig hafa rest. Þótt smithættan sé orðin lítil hér á eyjunni okkar þá sé ég enga ástæðu til að leika mér að eldinum.
Nú er bara að vona að ég sjái ekki eftir þessari ákvörðun í sumar.
Þar til næst.