Kæri lesandi,
á morgun á ég stórafmæli, sem þýðir að í dag er ég að kveðja áratug. Eða eitthvað. Þetta eru jú bara tölur, 40 er ekkert merkilegri en 39 nema af því að við ákváðum það. En á morgun fagna ég sem sagt fertugsafmæli mínu, af því tilefni ætla ég í bústað í sólarhring til að faðma fjölskylduna mína og skála. Ég er aðallega þakklátur fyrir að geta hitt þau öll, þetta hafa verið langir 2-3 mánuðir síðan foreldrar mínir, börn þeirra, tengdabörn og barnabörn komu síðast saman í grúppu en nú hef ég gefið þeim tilefni til og tekið af skarið. Það verður gott að hittast.
Það er ekki hægt annað en að líta um öxl degi fyrir svona tímamót. Maður spyr sig alls konar spurninga, eins og,
hvað hef ég gert við lífið síðustu tíu ár?
sé ég eftir einhverju?
ætli næstu fjörutíu ár, reynist ég svo heppinn að fá að upplifa þau, verði betri eða verri?
Og fleiri spurningar í slíkum dúr. Ég held reyndar að það sé ákveðin rökvilla að forma slíkar spurningar sem betri/verri. Það er ekki hollt að líta yfir farinn veg og ætla að gefa sjálfum þér einkunn, eins og þú hafir verið að þreyja stórt próf í skóla lífsins og nú sé komið að því að meta afraksturinn. Öll gerum við mistök, en við erum líka frábær á góðum stundum. Ég held ég sjái ekki eftir neinu nema kannski því hvað sumir góðu hlutirnir taka mig stundum langan tíma. Jú, reyndar, ég sé eftir öllum sykrinum, maður lifandi. Þar getur maður alltaf gert betur, en ég hef þó lært á þessum síðasta áratug að það er jafnvel enn óhollara en sykurinn sjálfur að vera sífellt að rífa sig niður fyrir óhollustu af hverju tagi.
Allavega. Stórafmæli. Ég efast um að mér muni líða öðruvísi á morgun en í dag, og svo verð ég sennilega búinn að gleyma því á sunnudag að ég eigi að vera orðinn eitthvað öðruvísi, þroskaðri eða eldri. Ég finn ekki fyrir neinum breytingum hjá sjálfum mér, og ég neita að hlýða utanaðkomandi þrýstingi um að nú eigi gamli að fá sér pípu og tweedjakka og vera svolítið virðulegur. Skítt með það. Mig langar í strigaskó í afmælisgjöf. Ég get ekki að því gert þótt ég eldist, en ég neita að þroskast.
Ég ætla ekki að skrifa hér inn á morgun, af því að sú færsla yrði örugglega full af sömu pælingum og ég hef í kollinum í dag. Tölum saman á sunnudag, hinum megin við tímamótin. Kæri lesandi, þá skal ég segja þér hvort eitthvað hefur breyst.
Þar til næst.