Kæri lesandi,
ég hef, eins og meirihluti karlmanna á mínum aldri, horft á þættina The Last Dance á Netflix síðustu vikur. Tveir þættir á viku síðustu fimm vikur, tíu alls, en síðustu tveir komu í dag og ég gleypti þá í mig strax í morgun. Þættirnir rekja ris og ris og afrek stórveldisins Chicago Bulls í NBA-deildinni í körfubolta vestan hafs, frá því að þeir völdu Michael Jeffrey Jordan þriðja í nýliðavalinu árið 1984 og þar til hann hætti á toppnum með liðinu 1998, búinn að spila tólf af fjórtán árum sínum í deildinni (hann hætti eins og frægt varð eftir morð föður síns og þrjá titla í röð sumarið ’93, sneri aftur vorið ’95), búinn að vinna sex titla á átta árum en í raun sex titla í röð, þar sem liðið tapaði bara ’94 og ’95 af því að hann var fjarverandi.
Þetta er náttúrulega saga magnaðasta hópliðs í sögu íþrótta, a.m.k. vestan hafs ef ekki í heiminum. Lið sem hafði aldrei unnið neitt áður fékk Michael Jordan í hendurnar, svo tók hann yfir deildina en vantaði betri þjálfara og meðspilara. Þá fengu þeir eiginlega óvart meistara Phil Jackson í hendurnar frá Puerto Rico af öllum stöðum og svo fótbrotnaði MJ sem gaf þeim séns á að ná nógu hátt í nýliðavalinu til að sækja Scottie Pippen honum til stuðnings.
The rest is history, eins og sagt er.
Ég ætla ekkert að tíunda sögu Bulls og Jordan hér frekar, hana þekkja allir að einhverju leyti. Þessir þættir eru frábærir að því leyti að þeir segja svo margar sögur í kringum liðið, í kringum bransann sem bandarískar íþróttir eru, í kringum MJ og Pippen og Dennis Rodman og Toni Kukoc og Steve Kerr, og svo framvegis. Og svo er það auðvitað rúsínan í pylsuendanum, allar upptökurnar bak við tjöldin frá 97/98 tímabilinu þar sem þeir reyndu við sjötta titilinn, aðra þrennuna og það vitandi að þetta yrði þeirra síðasta tímabil saman.
Það eru svo margar frábærar sögur þarna. Þessir þættir eru algjört tímabox frá því að ég var 10-18 ára, svo mjög að mér liggur við að kalla þetta tímavél. Ég mun horfa aftur á þessa þætti.
Ég ólst upp á þessum tímum og vakti yfir hverri úrslitaseríu Bulls á sumrin (takk, mamma og pabbi). Þetta eru sumar af mínum bestu minningum sem íþróttaunnanda. Síðan Jackson, Jordan, Pippen og Rodman yfirgáfu Bulls ’98 hefur liðið hins vegar ekki getað skít, fyrir utan svona tvö ár í kringum 2010 þar sem maður hélt að eitthvað væri að gerast en svo fjaraði það jafnóðum út. Þetta hefur verið algjör eyðimerkurganga hjá einu stærsta og vinsælasta íþróttaliði heims síðan Michael Jordan hvarf á braut. Einn daginn, samt. Það má alltaf vona.
Frábærir þættir um magnaða sögu einstaks íþróttamanns. Djöfull sakna ég Michael Jordan.
Þar til næst.