Kæri lesandi,

stutt færsla í dag, ég er eitthvað með í maganum. Rétt slapp heim úr vinnu í dag, það mátti vart tæpara standa.

Ég hugsaði samt um það á brautinni, í talsverðum flýti sjálfur en samt frekar rólegur, hvernig fólk hegðar sér undir stýri. Ég er jafnvel frekar slæmur með þetta, það er að á mér er dagamunur hvort ég er sallarólegur á Reykjanesbrautinni eða fullur bræði í garð þeirra bíla sem haga sér illa.

Að haga sér illa, svo því sé haldið til haga, flokkast í tvennt; þeir sem sýna ekki tillitssemi og þeir sem stofna öðrum í hættu með aksturslagi.

Stundum kemst ég ekki fram úr þegar tveir vilja keyra hlið við hlið … og mér er sama. Malla bara áfram í makindum. En aðra daga bilast ég og ligg jafnvel á flautunni og/eða ljósunum þar til sá vinstra megin drullar sér yfir. Og þetta er ekki háð neinum lögmálum, yfirleitt er ég ekkert í flýti að komast á áfangastað eða neitt slíkt. Þetta er bara spurning um dagsform.

Ég er langt því frá verstur, samt. Þegar maður keyrir daglega á hérumbil sama tíma sér maður oft sömu bílana aftur og aftur, og maður lærir á þá. Ökudólgarnir eru augljósir, sjást langar leiðir, og það er oft hjákátlegt að fylgjast með þeim. Hjákátlegt, það er að segja, nema þá fáu daga sem ég er einn þeirra.

Ökuhegðun er skrýtið fyrirbæri. Ég skil lítið í ökumönnum þessa lands, og sennilega minnst í sjálfum mér.

Þar til næst.