Kæri lesandi,

það er komið að samantekt. Ég skrifaði fyrstu færsluna á þessa síðu þann 30. október 2019. Síðan þá eru liðnir 203 dagar og og á þeim dögum hef ég skrifað 179 færslur alls. Þessi færsla er því númer 180. Í þessum færslum hef ég skrifað um 95 þúsund orð, og nálgast því tímamótatöluna hundrað.

Yfirleitt sest ég niður með eitthvað umfjöllunarefni í huga og skrifa án mikillar umhugsunar. Þannig var síðan hugsuð upphaflega og ég hef haldið því þannig, þetta er staður til að tjá mig án mikillar ritskoðunar eða umhugsunar. Ég var í upphafi að leitast við að upplifa ákveðið frelsi á nýjan leik, sem tókst aldeilis vel, og hef ég því ekki séð ástæðu til að breyta því.

Ég skrifa daglega, nema þegar ég geri það ekki. Ég skrifa um hvað sem mér dettur í hug. Ég ligg ekki sveittur yfir orðunum, veltist ekki fram og til baka, les ekki mörgum sinnum yfir. Þess í stað skrifa ég bara og birti. Tjái mig. Verði það sem verða vill.

Þetta hefur allt saman gengið glimrandi vel. Þegar ég lít yfir farinn veg, skoða færslusafnið, finnst mér þetta hafa verið gott. Auðvitað eru ekki allar 180 færslurnar einhver verðlaunaskrif, en það eru pistlar inn á milli þar sem ég kemst aldeilis á flug. Þetta er fjölbreytt, út um allt eins og ég er víst sjálfur, jákvætt og bjartsýnt einn daginn og eintómt röfl þann næsta. Skrifin á þessa síðu hafa gefið mér helling, lesandi kær, og vonandi þér líka.

Á þessu er samt einn galli. Á þessum næstum því sjö mánuðum hefur allt farið vel sem ég vonaðist til þegar ég hóf síðuna, utan eins; ég er ekki farinn að skrifa eins mikið og ég vildi utan síðunnar. Og ég spyr mig hvort það geti verið að vefsíðan standi nú í vegi fyrir sköpunargleðinni, sem er jú takmarkið sjálft?

Síðustu daga hef ég verið að velta því fyrir mér hvort ég eigi að taka mér sumarfrí frá síðunni. Tvo mánuði eða þrjá, svona á meðan lífið leikur við okkur öll, á meðan ég hef tíma og tækifæri til að sjá hvort skáldamjöðurinn er enn innra með mér eða hvort ég er þurrausinn. Ég ætla ekki að taka þetta frí strax, en ég er að hugleiða það. Geri ekki meira í bili.


Ég ákvað að vera heima í dag, á heimavelli á meðan magakveisan rennur sitt skeið. Það versta við magakveisu er að maður hefur enga eirð í sér til að gera neitt. Ég er ekki hrifinn af því að sleppa vinnu að óþörfu, enda finnst mér vinnan mín skemmtileg og gefandi þegar hún er ekki leiðinleg og skemmandi, þannig að ég hef setið í litlu skrifstofunni og komið ýmsu í verk svona með hléum í dag. Á morgun er svo frídagur, uppstigningardagur, og þá mun ég líka sitja á litlu skrifstofunni. Ég er bölvaður vinnuþjarkur þegar sá gállinn er á mér, nema rétt á meðan magakveisa gengur yfir. Þá er ég enginn vinnuþjarkur, bara eirðarlaus pirringspúki.

Ég hef því ekkert lesið, ekkert hlustað, ekkert horft, ekkert gert af viti í dag nema að láta tímann líða uppi í rúmi eða sófa, á milli þess sem ég hef sest við. En ég hef náð að vinna smá í dag svo ég dragist nú ekki aftur úr, og nú hef ég líka skrifað mína daglegu færslu. Það gæti verið verra.

Þar til næst. Sem verður á morgun, ekki í sumarlok. Ekki strax.