Kæri lesandi,

í dag er uppstigningardagur. Ég hef eytt morgninum hér á litlu skrifstofunni heima við ýmis störf, aðallega þó vinnuna sem borgar launin. Ég tók mynd af útsýninu úr stólnum við skrifborðið, reyndi að fanga magnið af græjum sem eru á þessu litla skrifborði. Ég er að vinna á fartölvu með 27″ aukaskjá fyrir ofan en notast einnig við iPad sem er á stadífi til vinstri. Svo er ég með tvo síma, annan fyrir vinnuna sem liggur á silent núna enda á að vera frídagur, með hinum (mínum persónulega síma) tók ég þessa mynd. Á bak við skjáinn má sjá glitta í hleðslubanka fyrir ýmis tæki og til hægri er blár Bose-hátalari sem hefur ofan af fyrir mér á meðan ég vinn. Fyrir framan hann eru svo fartölva konunnar minnar og iPad yngri dóttur minnar. Ég tel níu græjur á borði sem er 120x60cm að stærð. Það er ágætt.

Annars er ég betri í dag, allt annar maður. Læt vera að segja nýr, enda bara fimm dagar síðan ég varð gamall, en ég er betri maður í dag en í gær, það er á hreinu. Ég er að spá í að stíga út af litlu skrifstofunni núna og ryksuga, svo ætla ég í göngutúr, af því að það er það sem betri menn gera.

Þar til næst.