Kæri lesandi,

eitthvað misfórust nú dagbókarskrifin um helgina. Ég hreinlega gleymdi þessu, það verður að viðurkennast. Ég hafði svosum nóg að gera, en þetta er engu að síður óverjandi og ég biðst auðmjúklega afsökunar.

Á laugardag héldum við hinn árlega garðtiltektardag í húsinu. Ég bý í fjórbýli og íbúarnir skriðu út í sólina snemma morguns og slógu gras, skáru kanta, bættu í mold, skófu mosa úr kverkum hella, smúluðu plan og fleira skemmtilegt í þeim dúr fram eftir degi. Lokaverkið var svo að setja upp trampólínið í garðinum fyrir börnin í húsinu.

Þessi vinna var unnin í svoleiðis glimrandi sólskini og hita allan laugardag, en trampólínið var ekki fyrr komið upp en byrjaði að rigna og það hefur rignt síðan. Nú eru að verða tveir sólarhringar síðan trampólínið fór upp og enn hefur enginn krakki treyst sér til að hoppa á því. Þetta svikula, svikula veður.


Í gær las ég um 200 bls. í skáldsögunni Time To Hunt eftir Stephen Hunter, kláraði reyndar bókina. Þú fyrirgefur, lesandi kær, en ég ætla enn og aftur að mæra Hunter og bækur hans um stríðshetjuna Bob Lee Swagger hér. Þessi bók er æsispennandi og frábærlega skrifuð, allar sex hundruð blaðsíðurnar ríghéldu mér og ég man varla eftir að hafa lesið jafn góða spennusögu lengi. Þetta er mögulega besta bók Hunter til þessa, nú er bara að reyna að halda í mér með að byrja á næstu (ég er búinn með fjórar af fjórtán, á nóg eftir). En mikið djöfull getur karlinn skrifað góðar spennusögur.

Næsta bók heitir The 47th Samurai og gerist að mestu leyti í Tókýó. Ó, sú freisting, ég biðst hreinlega vægðar!

Í einhverju lestrarkófi tók ég þá stórundarlegu ákvörðun að reyna að byrja á annarri bók seint í gærkvöldi, rétt undir miðnætti, þegar ég lauk við blaðsíðurnar tvö hundruð. Það entist ekki lengi, ég sofnaði í sófanum með fyrstu opnuna á grúfu á bringunni. Það mætti því alveg segja að ég hafi lesið yfir mig í gær.

Þar til næst.