So much on my mind that it spills outside.

Kæri lesandi,

segjum að ég gangi inn á biðstofu. Hjá tannlækni, segjum það bara. Það hentar þessari draumsýn ágætlega því maður er alltaf stressaður og með snert af tilvistarkreppu á biðstofu hjá tannlækni. Nema hvað, ég geng inn á biðstofuna og þar sitja Donald Trump (með nefið ofan í símanum (á Twitter)), Bergur Ebbi (sveiflandi lyklakyppu og talandi út í loftið um bandaríska jeppa), hljómsveitin Animal Collective (allir í dýrabúningum og með hljómborð eða trommur í kjöltunni), foreldrar mínir með dætur mínar í fanginu (öll að tala í einu), Guðmundur Franklín og Heimir Már (í miðju heitu rifrildi). Í sætinu á endanum sitja svo fjórar bækur sem ég hef byrjað að lesa í bloggfríinu en ekki lokið við.

Um leið og ég kem inn slær þögn á allan hópinn. Bækurnar bregðast fyrstar við og fljúga í fangið á mér, skoppa þar um eins og ungar sem vilja fá fyrsta orminn frá móður sinni. Þau hin koma öll í kjölfarið og króa mig af úti í horni, þrýsta mér að hurðinni sem opnast inn í rýmið svo að ég kemst ekki út. Dætur mínar eru grátandi, foreldrar mínir hafa spurningar sem þarfnast svara, Bergur spyr hástöfum hvernig bíl ég á og hvort ég hafi lesið bíógrafíu þýsku hljómsveitarinnar Kraftwerk, hljómsveitin Animal Collective byrjar að spila á hljóðfæri sín og syngja einhverja dellu sem er örugglega snilld ef ég bara næ að einbeita mér að þeim í smástund fyrir öllum hinum, G. Franklín snýr sér að Trump og reynir að ná athygli hans á meðan Heimir Már öskrar yfir allan hópinn að þetta sé komið gott, við séum fallin á tíma, og aftast stendur Trump og skýtur endrum og sinnum inn „Fake news!“ á meðan hann retweetar einhverjum skilaboðum frá rasista (úps!).

Segjum að tannlæknirinn ljúki upp dyrunum og kalli nafn mitt hástöfum, seilist í höndina á mér og dragi mig út úr þvögunni, inn fyrir dyrnar og loki svo á skrílinn. Svo vísar hann mér til sætis á meðan hann þvær sér um hendurnar af því að við snertumst og það má ekki snertast árið 2020. Ég sest í stólinn og ætla að byrja að segja honum að ég sé með svo slæma tannpínu að ég hef ekki sofið en ég kem orðunum ekki upp. Þannig að ég leggst í stólinn og byrja bara að kjökra. Kjökra af því að ég veit að fyrr eða síðar þarf ég að stíga upp úr stólnum og ganga aftur fram á biðstofu. Tárast af því að árið 2020 hafa allar hliðar tilverunnar verið skrúfaðar upp á svo mikinn hljómstyrk að það brestur í hátölurunum.


Ég er sem sagt búinn að vera í fríi. Bloggfríi, jájá, en líka bara í fríi. Í næstum tvær vikur núna, allur skakkur í bakinu og fullur sjálfsvorkunnar. Og eins og alltaf hef ég sofið illa, sofnað seint og vaknað seint og slumpast niður í einhverja lágdeyðu. Við gerum helling; ég sló grasið í morgun og við erum að mála íbúðina, keyptum sófa og alles, þreif bílana og hef farið oft út úr húsi, ég lofa. En ég hef líka haft meiri tíma til að rífast við sjálfan mig, vera ósáttur við röddina í höfði mér. Eckhart Tolle segir að við fáum öll á endanum nóg af sjálfum okkur og að framtíðin velti á því hvernig okkur gengur að leysa úr þeim ágreiningi. Ég er enn í karphúsinu.

Vandinn er að nútíminn hjálpar ekki til. Hugsaðu um það sem þú upplifir, lesandi kær. Tímarnir okkar. Þvílík bölvun. Brexit og Trump, endalausar smábyltingar og rafræn rifrildi, slaktívismi og mótbárur, fimmtán mínútna alræmi og í kjölfarið botnlaus örvænting. Í dag þarf að hafa skoðun á öllu, lífið þýtur hjá bundið framan á stjórnlausa hraðlest og annað hvort hopparðu af eða ekki. En dragðu linsuna aðeins út, víkkaðu sjónsviðið. Sjáðu heildarmyndina. Virtu fyrir þér breytingarnar sem við höfum upplifað á mínu æviskeiði, lesandi kær. Tilveran er óþekkjanleg frá árinu sem ég fæddist, ef fullorðin manneskja gæti hoppað í tímavél frá árinu 1980 til 2020 myndi hún upplifa nútímann sem fantasíu. Á þessum fjörutíu árum höfum við reynt ótrúlega margt, bæði með sjálfum okkur og sem samfélag, hér heima og á alþjóðlegum grundvelli. Ég hef lifað að sjá Berlínarmúrinn í öllu sínu veldi, sjá hann svo rifinn, sjá hann verða að safngrip og túristagildru og loks keypt bút úr honum í glerbúri fyrir dóttur mína. Sá bútur er uppi á hillu í næsta herbergi.

Dragðu linsuna enn lengra út. Allur heimurinn er þorp, við innbyrðum fréttir af aurskriðum í Bólivíu eða hungursneyð í Jemen á sama hátt og við myndum meðtaka fréttir af Fáskrúðsfirði eða Akureyri. Við eigum í nánum einhliða samskiptum við alls konar fólk um allan heim, fáum aðgang að hugsunum þeirra, lífi og samtölum í gegnum virtjúal gluggana sem sýna okkur hvað sem hugurinn girnist, eða litlu tækin sem allt vita og rúmast í buxnavasa. Allt er til sölu, við erum varningurinn og viðskiptavinurinn, við höfum greiðan aðgang að allri heimsins vitneskju en höfum samt aldrei verið jafn auðtrúa, við berjum okkur á brjóst og setjum upp sýningar fyrir alls konar málefni en erum svo hrædd við að bera andlitsgrímur. Okkur blæðir af samkennd fyrir alls konar málefnum en gerum hvert annað svo réttdræpt fyrir að leggja illa. Við höfum aldrei verið jafn klofin á alla vegu og það eina sem kemur í veg fyrir að við myrðum hvert annað er að þverskurðirnir eru svo margir í samfélaginu að við eigum öll eitthvað sameiginlegt. Hvers vegna ætti ég að beita rasista ofbeldi þegar hann heldur með Liverpool eins og ég?

Ah, já. Liverpool. Meistarar 2020!

Svona líða dagarnir. Í stríði við sjálfan mig, með bakið upp við lokaða hurð og allan heiminn á hæsta styrk. Eini munurinn er að í fríi hef ég meiri tíma fyrir rifrildið. Dagarnir líða hver af öðrum, maður reynir að gera allt í einu og endar á að gera of lítið af öllu, leggst svo til hvílu eins og gróður í regni, vökva mig með draumum þar sem tilveran fyrir utan svefnherbergið meikar sens. Vex út frá sjálfum mér eins og sveppur sem veldur engum ofskynjunum í veröld sem er öll á sterkum lyfjum. Okkur líður öllum svona. Ekkert okkar er hannað fyrir þessa geðveiki. Er það að furða að þetta sé erfitt?


Ég er sem sagt snúinn aftur á vígvöll orðanna. Nú skal bloggað, daglega nema þegar ég geri það ekki. Ég tók mér júnímánuð í frí, fannst við hæfi að það yrðu bara núll færslur í þeim mánuði, en nú er komið miðnætti og fyrsti júlí genginn í garð. Eða eins og Arnold Schwarzenegger orðaði það í Kindergarten Cop: „I’m back!“

Þar til næst.