Kæri lesandi,
aukablogg í dag af því að ég er hugsi yfir frétt sem ég sá í kvöldfréttunum. Þar kom fram að stærstur hluti gerenda í kynferðisbrotamálum hér á landi eru ungir karlmenn sem nauðga vinkonum sínum. Ég hlustaði á þessa frétt frekar kjaftstopp. Kannski vissu margir þetta fyrir en ég varð alveg bit. Svo fór ég að hugsa til baka til minna yngri ára og allt í einu fannst mér þetta rökrétt. Það kom fyrir, á árunum í kringum tvítugt, þegar við kunnum ekki á áfengi, að einhver endaði í óminni eða alltént ekki ábyrg/ur gjörða sinna lengur og þá stigu vinirnir í hópnum jafnan upp og sáu um að koma viðkomandi í leigara og gefa upp rétt götunafn. Ef um mjög tæpt ástand var að ræða kom jafnvel fyrir að maður settist upp í leigubíl með viðkomandi til að tryggja að sá/sú drukkna skilaði sér heim.
Þetta gilti um stelpur og stráka jafnt. Það kom alveg fyrir mig eins og aðra að vakna morguninn eftir og þurfa að rekja ferðir mínar. Yfirleitt byrjaði það á spurningunni, “hvernig komst ég heim?” Og alltaf svaraði einhver, “X fór með þig í leigubíl.” Yfirleitt, segi ég, en meina svona tvisvar eða þrisvar. Ég varð fljótt um tvítugt leiður á að drekka yfir mig og hætti að neyta áfengis. Hef síðan kynnt mér það aðeins en nenni ekki að vera fullur. Drekk frekar við tilefni, og þá eitthvað sem bragðast vel frekar en eitthvað sem ruglar í mér rásunum.
Nema hvað, ég var oftar en tvisvar-þrisvar sjálfur í hlutverki þess ábyrga sem pantaði leigubíl fyrir vin eða vinkonu. Stundum fór maður með í bílinn, en þá bara ef maður hafði miklar áhyggjur (sem var aðallega þegar stelpurnar áttu í hlut) og eitt skiptið gekk ég svo langt að hringja dyrabjöllunni heima hjá vinkonu og hjálpa pabba hennar að koma henni út úr leigubílnum.
Þetta þótti bara svo sjálfsagt, og í barnalegri einfeldni hafði ég næga meðvitund um aðstæður til að hafa áhyggjur af því ef vinkona drakk yfir sig og sofnaði á balli eða tjaldsvæði eða í partýi, af því að maður vissi greinilega að strákar gætu verið siðblindir, án þess kannski að staldra við og íhuga þá staðreynd sérstaklega.
En hér er hún núna, staðreyndin sú. Ungar konur drekka kannski frjálslegar af því að þær telja sig öruggari í góðra vina hópi, en svo er það bara algjör rúlletta hver af strákunum tekur að sér að hjálpa henni upp í leigubíl eða inn í tjald. Andskotans dauði og djöfull.
Ég spurði konuna mína eins og bjáni í kvöld, eftir að við horfðum saman á þessa frétt, hvort hún væri jafn hissa og ég. Svipurinn sagði margt. Eflaust hefur ekki ein kona verið hissa á þessari tölfræði, en ég kom af fjöllum. Og svo áttaði ég mig á að ég hafði alltaf vitað þetta, þess vegna hafði ungur maður áhyggjur ef vinkona drakk yfir sig. En af því að þetta snerti mig ekki beint var auðvelt að gleyma því jafnharðan. Af því að ég kastaði teningunum ekki í hvert sinn sem ég drakk. Það voru forréttindi sem ég bar ekki kennsl á fyrr en nú í dag.
Þar til næst.