Kæri lesandi,

ég fór í Lyfju fyrir hádegi í morgun til að sækja annan skammt af ofnæmislyfjum. Ég tók miða og beið eftir að mitt númer yrði kallað upp. Þegar ég var næstur í röðinni gekk eldri maður inn haldandi á poka. Hann var gráhærður og illa til fara, andaði þungt og virtist í slæmu formi. Hann var með læknissólgleraugu (dökkt gler, líka á hliðunum). Pokinn var merktur Lyfju og virtist troðfullur, hann átti í vandræðum með að ná handföngunum saman. Nema hvað, um leið og mitt númer var kallað upp gekk hann rakleitt að afgreiðsluborðinu. Ég sá í hvað stefndi og benti konunni bak við borðið á að þetta væri í lagi, ætlaði ekki að fara að byrja daginn á að rífast við gamlan mann í apóteki. Gamli maðurinn gekk rakleitt að borðinu, skellti pokanum upp á og sagði, „þetta er rusl frá ykkur.“ Svo sneri hann við og gekk út úr búðinni.

Konan opnaði pokann og skoðaði ofan í. Tók kassa upp úr pokanum, svo annan og loks þriðja. Þetta voru allt lyfjakassar. Hún opnaði einn og dró upp töfluspjald, tómt. Svo virðist sem gamli maðurinn hafi passað upp á þetta allt til að skila þessu. Fullur poki af lyfjakössum, hver kassi fullur af fullnýttum töfluspjöldum. Allt tómt. Og svo kom hann aftur með þetta í Lyfju til að „skila“. Ég gat ekki annað en brosað.

Í hádeginu fór ég á Kjarvalsstaði til að hitta dómnefnd bókmenntaverðlauna sem ég tilheyri. Nema hvað, konan í dómnefndinni hafði gleymt tilefninu og var komin annað þegar ég hringdi í hana. Eftir sátum við tveir, ég og eldri rithöfundur sem var að ljúka síðasta ári sínu í dómnefndinni, og kjöftuðum um allt og ekkert í níutíu mínútur. Það var mjög gaman og gefandi. Ég heillaðist líka alveg af Kjarvalsstöðum, einhverra hluta vegna eru mörg ár síðan ég steig fæti þarna inn en ég læt ekki líða svo langt þar til næst. Á veröndinni stóðu þrjár ungar stúlkur og léku tónlist á fiðlur og það virtust allir í góðu skapi. Ég ætla aftur þangað í sumar, í það sinn tek ég Lilju og dætur okkar með. (Ég gleymdi að taka mynd af sólinni á Kjarvalsstöðum þannig að ég læt í staðinn fylgja með færslunni nokkurra vikna gamla mynd af regninu í miðbæ Hafnarfjarðar.)

Í kvöld var svo fótboltaleikur. Nýkrýndir Englandsmeistarar Liverpool komust að því að lífið heldur áfram eftir að allir draumar hafa ræst. Til hamingju strákar, en það þarf samt að mæta áfram í vinnuna. Þeir muna það bara næst. 4-0 flenging er ekki til marks um meistarabrag.

Þar til næst.