Kæri lesandi,

dagarnir náðu í skottið á mér í dag. Ég varð skyndilega mjög eirðarlaus, stuttur í spuna, tæpur jafnvel. Þessi vika hefur verið stórgóð, ég hef klárað fjölmörg af verkefnum listans langa eins og vel smurð vél, en í dag kom ég litlu í verk. Upp úr hádegi sætti ég mig við orðinn hlut og fór bara að lesa. Ég er að lesa norsku glæpasöguna Þerapistinn eftir Helene Flood. Hún er mjög góð, ég er rétt rúmlega hálfnaður. Þannig að ég las í dag, eftir að allt annað hafði brugðist. Ég er í sumarfríi. Það má.

Einu kom ég þó í verk. Ég lét undan græjufíkn og keypti eitthvað fokdýrt lyklaborð fyrir stóran iPad hjá Eplinu góða. Ég er spenntur fyrir græjunni, annars hefði ég ekki fjárfest í eintaki, en það fyndna er að nýi iPadinn sjálfur er ekki einu sinni til á landinu. Ég þarf að bíða aðeins lengur eftir eintaki af honum. Þannig að nú á ég bara lyklaborð og engan snertiskjá við. Þetta er vélritað á “gamla” iPadinn minn með skrýtna lyklaborðinu sem ég hef náð að venjast og vélrita nú ansi hratt og örugglega á. Nýja lyklaborðið er enn í kassanum og af því að ég sit í sófanum nota ég þann kassa sem undirtyllu fyrir gamla iPadinn á meðan ég vélrita þessi orð.

Áttatíu þúsund króna undirtylla, þar til græjan sjálf kemur til landsins og lyklaborðið öðlast líf. Nútímamaðurinn er náttúrulega klikkaður, ég er þar engin undantekning. Græjur og bækur og peysur, þetta veistu vel lesandi góður. Ég hef enga sjálfsstjórn þegar kemur að þessum hlutum.

Þar til næst.