Kæri lesandi,

það fór sennilega ekki framhjá þér frekar en nokkrum öðrum að Liverpool vann Englandsmeistaratitilinn fyrir tíu dögum, í fyrsta sinn í þrjátíu ár. Eyðimerkurgöngunni er lokið.

Ég ætla ekki að tíunda alla mína sögu varðandi knattspyrnuliðið Liverpool hér. Þú þekkir mig, lesandi kær, og veist því að ég fékk stuðning við Liverpool í vöggugjöf, að ég hef haft þráhyggju fyrir að sjá liðið vinna deildina nær öll þessi þrjátíu ár, að ég missi helst aldrei úr leik ótilneyddur, að ég skrifaði í fjórtán ár á vinsælustu Liverpool-síðu landsins, síðu sem ég stofnaði við annan mann, að ég taldi niður í færslum fyrstu vikna þessa árs þar til það yrði loks tölfræðilega staðfest að titillinn væri í höfn, áður en plágan setti allt á bið í hundrað daga.

En svo gátu enskir loks byrjað að halda knattleiki á ný í miðjum júní, og það tók viku fyrir úrslitin að ráðast. Liverpool eru meistarar. Ég hef haft tíu daga til að átta mig á þessu og ég er enn bæði að njóta þeirrar staðreyndar að þetta hafi loksins gerst og að melta hvaða þýðingu þessi atburður hefur á líf mitt.

Ég er langt því frá einn um slíkar pælingar. Í gær hlustaði ég á sérstakan viðhafnarþátt af Markmannshanskar Albert Camus á RÚV. Í þættinum var einmitt fjallað um meistaratign Liverpool og var í þættinum spurt, hvað gerist eftir að draumar hafa ræst? Viðmælendur voru einn Púllari útí bæ (svipaður og ég, sem sagt), rithöfundur og heimspekingur, og þau tvö íslensku sem hafa leikið fyrir Liverpool (Haukur Ingi og Katrín Ómars). Farið var djúpt í vangaveltur um hvernig heimsmynd manneskju sem hefur byggt lífssýn sína að einhverju leiti á þeirri “þjáningu” sem kann að fylgja því að halda með Liverpool (að lifa í skugga bölvunar, altso) muni mögulega breytast nú þegar bölvunarinnar, myllusteinsins sjálfs, nýtur ekki lengur við.

Ég hef svo sem engin skýr svör við þessu í dag. Tíu dagar nægja ekki til að melta mögulega breytta heimsmynd, eins og það var orðað í þættinum. Ég er ekki annar maður en ég var fyrir ellefu dögum, þannig séð, en eflaust á farsæl úrlausn þessarar þráhyggju eftir að hafa áhrif á mig sem ég get ekki séð fyrir.

Þangað til einbeiti ég mér að því sem er hollast, að njóta þess að þetta skuli hafa gerst. Liverpool unnu deildina. Ég held með Englandsmeisturunum. Brosið er frosið.

Þar til næst.