Kæri lesandi,
“I’m feeling rough, I’m feeling raw, I’m in the time of my life,” söng Andrew VanWyngarden, meðlimur sveitarinnar MGMT á stórsmellinum “Time to Pretend” af fyrstu plötu sveitar, Oracular Spectacular. Ég hef verið að hlusta aðeins á þessa plötu að undanförnu, rifja hana upp. Hún er auðvitað stórgóð, fyrsta plata sveitar sem sló rækilega í gegn fyrir fimmtán árum með 70s skotnu tölvupoppi. Nema hvað, hljómsveitin fór alveg í keng við heimsfrægðina og hefur eytt þessum fimmtán árum í að hlaupa sem lengst frá velgengninni, fela sig fyrir þessari plötu að því er virðist.
MGMT eru ekki eina dæmið um slíka hljómsveit. Ef þú spyrðir mig lesandi kær hvaða plötu ég teldi besta tónverk aldarinnar hingað til væri svarið hiklaust Lateralus með Tool, en Merriweather Post Pavilion með Animal Collective væri ekki langt undan.
MPP var þriðja plata Animal Collective ef ég man rétt. Orðum það svona, plöturnar sem komu á undan MPP eru algjört rusl, nær engar lagasmíðar prýða þær plötur, þess í stað eru meðlimir sveitarinnar aðallega að prófa sig áfram með misáhugaverða hljóðheima og þetta er allt frekar óspennandi. Sömu sögu er að segja um plöturnar sem hafa komið út á eftir MPP. Þær eru ekki góðar hljómplötur. Sem gerir einmitt svo óskiljanlegt að Animal Collective skuli allt í einu hafa breyst í 21. aldar Bítla/Techno/FleetwoodMac-blöndu á þessari einu plötu. Hún er ævintýralega góð, platan sú, með þeim bestu sem ég hef heyrt um ævina og öllu öðru ólík. Og um leið og þeir hleyptu henni út í heiminn sneru þeir við og hlupu eins hratt og þeir gátu í hina áttina, sem lengst frá heimsfrægðinni sem blasti við.
Þetta er mikil synd og skömm. MGMT og Animal Collective sýndu okkur hvað í þeim bjó og ég get ekki annað en harmað þann missi að þeir skuli ekki hafa haft metnað í að reyna við þá staðla sem þeir settu sjálfum sér á Oracular Spectacular og Merriweather Post Pavilion.
Annað. Í gær pantaði ég mér dýra græju á netinu frá fyrirtæki á Akureyri. Sú græja virðist þegar hafa misst af einum flutningadegi hingað suður og er ekki á leið í flug fyrr en í fyrsta sinn á morgun. Það er að rifjast hratt upp fyrir mér hversu óáreiðanleg fyrirtækjaþjónusta Póstsins innanlands getur verið. Einu sinni beið ég í tíu daga eftir að pakki sem ég sendi frá Keflavík kæmist til Hornafjarðar. Það verður spennandi að sjá hvort litli pakkinn frá Akureyri, sem Pósturinn sagði mér í morgun að yrði kominn til Hafnarfjarðar innan tveggja daga (hef heyrt það áður) slái metið!
Þar til næst.