Kæri lesandi,

ég hefði betur baktalað Póstinn aðeins meira í gær. Ég fékk skilaboð í nótt um að pakkinn væri kominn á útstöðina í Hafnarfirði og fór sæll og glaður á pósthúsið strax við opnun í morgun og sótti pakkann.

Nú á ég sem sagt iPad Pro (2020 version), stærri útgáfuna (12,9” skjástærð), og eins og ég fjallaði um fyrir helgi á ég líka hið svokallaða Magic Keyboard, rándýra lyklaborðið sem passar við iPadinn.

Þetta var rándýrt en ég keypti með þessu bæði nýja spjaldtölvu og nýja fartölvu. Ég hef notað gamla iPad Pro-inn minn (fjögurra ára, 11” skjár) með ýmsum lyklaborðum það mikið að ég vissi að notkun mín myndi “réttlæta” þessi útgjöld (skrifað eins og sannur kaupalki). Í dag hef ég dundað mér við að setja þetta upp, sækja öll forritin og skrá mig inn og hafa allt eins og ég vil hafa það. Og ég get sagt strax að ég held að ég muni ekki nota neitt annað utan vinnu en þennan iPad með þessu lyklaborði. Að fá lyklaborð með baklýstum tökkum (mikilvægt) og snertifleti (mikilvægara) er algjör gamechanger (mikilvægast).

iPadinn minn er tölvan mín. Ég hef stigið það skref. Og fyrst ég er á þeim buxunum get ég deilt með þér, lesandi kær, þeirri skoðun minni að næstu kynslóðir munu bara alls ekki nota fartölvur. Dóttir mín er tólf ára og gerir allt á síma eða iPad. Hún notar ekki tölvur og þegar ég er að reyna að sýna henni hvernig fartölva virkar horfir hún á mig eins og ég sé að kenna henni á skífusíma. “Er ekki lyklaborð með iPadinum?” spyr hún. “Jú,” svara ég. “Til hvers þá að nota svona gamaldags tölvu?” Skák og mát, gamli. Skák og mát.


Konan mín fór á undan mér í bústað í dag. Hún tók yngri dóttur okkar með sér, ætlar að gefa henni tvo sólarhringa með frændum sínum sem eru á sama aldri áður en systir hennar, unglingurinn, mætir á svæðið. Okkur fannst skynsamlegt að systurnar fengju smá frí hvor frá annarri, ástandið enda orðið frekar tæpt hér í heimafríinu, og svo hreinlega nennti ég ekki strax uppeftir. En ég fer á föstudag og verð yfir helgina. Það er líka hálfgert ættarmót í Öndverðarnesinu um helgina, það verður gott og gaman að hitta alla ættingjana svona “hinum megin” við samkomubannið. Eða í hálfleik, hvernig sem það endar.

En fyrst ætla ég að slaka duglega á í bænum fram á föstudag, leika mér að ný… nei ég meina vinna helling á nýja vinnutækinu mínu.

Þar til næst.