Kæri lesandi,

fyrir tveimur mánuðum skrifaði ég færsluna “Sumarleslistinn” þar sem ég taldi upp þær bækur sem ég ætlaði sennilega að lesa í sumar. Slíkur listi breytist alltaf, en við skulum að gamni renna aðeins yfir listann og sjá hvernig til hefur tekist á tveimur mánuðum:

  • Þerapistinn e. Helene Flood (langt kominn!)
  • The Glass Hotel e. Emily St. John Mandel (ólesin)
  • Time To Hunt e. Stephen Hunter (búinn!)
  • A Simple Plan e. Scott Smith (búinn!)
  • Tigana e. Guy Gavriel Kay (sending týndist, Amazon endurgreiddi, ólesin)
  • The Law of lines e. Hye-Young Pyun (ólesin)
  • The King of Crows e. Russell Day (búinn!)

Ég setti sem sagt sjö bækur á lista fyrir tveimur mánuðum. Ég er alveg að verða búinn með þá fjórðu af sjö á listanum, sem er sæmilegt. Þess að utan hef ég auðvitað lesið eitthvað af bókum sem voru ekki á listanum.

Ég hlustaði á If It Bleeds, nýtt sagnaver úr smiðju Stephen King. Þetta eru fjórar nóvellur og mér líkaði bókin mjög vel. Mér fannst tvær þeirra frábærar, ein fín og ein ekkert spes. Heilt yfir mjög gott.

Ég hlustaði á Mörgæs með brostið hjarta eftir Stefán Mána. Þetta er stutt og heillandi hugleiðing um ástina og ástarmissi, brostnar vonir og hvernig mynd í molum getur orðið heil á ný. Hún er fín, ekki frábær myndi ég segja en ágætis leið til að eyða kvöldstund.

Ég las The Reckoning eftir John Grisham. Hún er góð, þriðja bókin sem ég les eftir hann og sú besta. Ég ætla að lesa eitthvað annað eftir hann fljótlega, hann er fínasta poppkorn. Ef þið hafið séð myndirnar eftir bókum hans þekkið þið hvað hann hefur upp á að bjóða.

Ég las loksins DUNE bækurnar eftir Frank Herbert. Fyrstu tvær, það er að segja. Ég ætla að lesa þriðju áður en stórmyndin sem gerð er eftir fyrstu bókinni kemur í kvikmyndahús næsta vetur. Fyrsta bókin er stórvirki, þar er einfaldlega meistaralega góð saga á ferð sem fór í mínum bókum rakleitt í hóp meðal bestu fantasíu- og vísindaskáldsagna sem ég hef lesið. Önnur bókin er ekki eins góð, svolítið eins og millibilsástand sem færir söguna frá fyrstu bókinni að þeirri þriðju, sem ég er nú mjög spenntur fyrir að lesa.

Ég las The North Sea eftir Ian McGuire. Hún er frábær, mögnuð, fer sennilega á lista með Dune og Recursion e. Blake Crouch yfir bestu bækur sem ég hef lesið í ár. The North Sea minnir um margt á The Terror eftir Dan Simmons. Mér þótti bók Simmons kafa dýpra í sama málefni en McGuire gerir en á sama tíma er bók McGuire styttri og snarpari sem hefur sína kosti. Þetta var rosaleg lesning sem hélt mér í heljargreipum þar til ég kláraði. Hæstu meðmæli.

Og nú er ég svo kominn aftur á heimaslóðir. Ég er að klára Þerapistann og ég er líka að lesa bókina sem er á mynd efst í færslunni, The 47th Samurai eftir Stephen Hunter. Þetta er fimmta bókin um Swagger-feðga og ég er tæplega hálfnaður en hún gefur þeim fyrri ekkert eftir. Það er nokkuð ljóst að ég mun lesa Hunter-bók annan hvern mánuð eða svo þar til serían er uppurin, sem ætti að endast mér fram á mitt næsta ár eða svo. Ég kvíði því þegar þessum bókum sleppir.

Þannig hefur sumarlesturinn gengið. Við kíkjum kannski á listann aftur eftir tvo mánuði og sjáum hvað hefur bæst við.

Þar til næst.