Kæri lesandi,

það er með ólíkindum að fylgjast með hvernig ólíkir hópar nota tungumál stundum til að snúa vörn í sókn. Ég er hugsi yfir þessu. Á meðan ég var í bloggfríi varð allt vitlaust vestan hafs. Enn einn svarti maðurinn var myrtur af lögreglunni fyrir litlar sem engar sakir, skortur á samkennd og virðingu fyrir mannslífi svo sláandi að mann sundlar. Og í þetta sinn virtist fólk fá nóg. Það þusti út á göturnar með skilti og slagorð, fyllti götur flestra bandarískra stórborga og víðar. Og það í miðju samkomubanni, í miðjum faraldri. Fjölmennið stóð á torgum og götuhornum og hrópaði, BLACK LIVES MATTER, hrópaði það svo hátt að allur heimurinn tók eftir. Og allur heimurinn tók undir. Lögreglan í Bandaríkjunum var komin í nauðvörn, talað var um að draga úr fjárveitingum og jafnvel fella lögregludeildir niður með öllu. Taka tappann úr baðinu, skola öllum óþverranum burt og byrja upp á nýtt.

Einhvern veginn tókst lögreglunni að snúa vörn í sókn, dyggilega stutt af háværum minnihlutahópi. Og hvernig sneru þau vörn í sókn? Með því að halda á lofti sínum eigin slagorðum. Annars vegar, fyrir lögregluna sjálfa, BLUE LIVES MATTER, og hins vegar fyrir almenning sem er á móti þeirri vinstrislagsíðu sem þeim þótti BLACK LIVES MATTER bera boð um. Sá hópur hrópaði ALL LIVES MATTER, sem er í senn svo arfavitlaust slagorð að mann sundlar og svo snilldargóð taktík að maður stendur upp og klappar.

Þetta er frábær taktík af því að með því að segja að öll líf skipti máli er samstundis búið að ýja að því að þau sem segja að svört líf skipti máli séu þá að meina að önnur líf en svartra skipti minna, eða engu, máli. Í einu vetfangi snerist sókn BLACK LIVES MATTER í vörn. Skyndilega þurfa allar rökræður um BLM að hefjast á því að stuðningsfólk BLM sver að þeim þyki öll líf mikilvæg, þótt þau vilji einbeita sér að betrumbót fyrir líf svartra í þetta sinn.

Á yngri árum las ég skrif Jacques Dérrida um það hvernig hægt er að beita tungumáli með nákvæmlega þessum hætti. Þau sem hrópa ALL LIVES MATTER eru á röngunni í þessu máli, það vita allir og þau sjálf best. Hér er verið að verja rasískar stofnanir og rasískan hugsanahátt sem hefur skilað algjöru afhroði fyrir minnihlutahópa í Bandaríkjunum (og víðar) en af því að vörnin er svo feykigóð virðist hún virka. Fyrir mánuði hélt ég að það væri komið að byltingu vestan hafs, að það væri engin leið að stinga tappanum aftur ofan í þessa flösku, en það virðist nú samt vera að gerast. Öldur eru að lægja, fólk er farið að einbeita sér aftur að faraldrinum sem sækir í sig veðrið vestra (önnur svipað sorgleg umræða) og auðvitað forsetakosningunum sem væru að öllu eðlilegu það eina sem skipti máli í ár. Og enn heldur lögreglan áfram sínu striki, fær að komast upp með dólgsháttinn og siðleysið. BLM-liðar reyndu að koma af stað öðru slagorði í sumar, ACAB, sem stendur fyrir All Cops Are Bastards. Það tókst ekki af því að það er ekki satt, það eru ekki allar löggur vestan hafs fávitar. En þegar þú vinnur fyrir stofnun sem er rasísk ertu að taka þátt í rasísku kerfi, hvort sem þú ert rasisti eða ekki.

Ekki það að neitt slíkt skipti máli. Þessi mál verða aldrei rökrædd. Slagorðin berjast og útkljá málið, og ALM virðist hafa lagt BLM … að sinni. Tungumálið hefur enn og aftur lagt skynsemina að velli.


Annars er ég kominn í bústað. Hér eru sól (jákvætt) og lúsmý (neikvætt). Á morgun kemur hálf ættin til okkar í árlega míní-ættarmótið. Það verður gaman, ég hlakka til.

Þar til næst.