Kæri lesandi,
í fyrra þurfti ég að yfirgefa ættarmót móðurættar snemma á laugardegi. Við vorum með bændagistingu við Gilsfjörð og svo var bóndinn að slá og heyja allt í kringum okkur. Frá komunni þangað átti ég erfitt með öndunarfærin, þökk sé frjókorna- og grasofnæmi á háu stigi. Ég þráaðist við um nóttina en í hádeginu daginn eftir var mér öllum lokið og bróðir minn keyrði mig í bæinn, þar sem ég sat í sturtunni í svona tvo tíma þar til ég gat andað eðlilega á ný.
Í morgun fór ég heim af sama ættarmóti, snemma á laugardegi. Ég er búinn að vera á steralyfjum við ofnæminu til að það myndi ekki hindra mig aftur en í nótt vaknaði ég löðrandi í svita og með mikinn svima og ógleði. Þegar ég reyndi að fara á fætur ældi ég. Mér tókst ekki að hrista það af mér og ákvað að drífa mig í bæinn áður en flestir ættingjar mínir mættu á svæðið, meikaði ekki að horfa framan í fólkið mitt og þurfa að útskýra af hverju ég væri að hverfa frá annað árið í röð.
Ég keyrði heim og ældi. Svaf í þrjá tíma. Vaknaði og skreið í sófann, horfði á fótboltaleik. Fór í sturtu, styttri en þá fyrir ári. Svo borðaði ég smávegis. Nú sit ég einn heima og hef eiginlega ekki orku í að gera neitt, þannig að ég ákvað að henda færslu dagsins hér inn og fara svo snemma að sofa. Á laugardegi, um mitt sumar. Annað árið í röð. Fari það grákolað.
Mér sýnist í fljótu bragði sem ég hafi um tvennt að velja á næsta ári: einfaldlega að afþakka og reyna ekki einu sinni að mæta, óháð stað og stund, eða að byrja strax að færa guðunum fórnir svo þeir aumki sig yfir mig og leyfi mér að hitta ættingja mína.
Þar til næst.