Kæri lesandi,

mér hefur oft fundist einvera ágætis mælikvarði fyrir hugarástand mitt. Ég á afskaplega auðvelt með að vera einn, líður vel í eigin félagsskap, en bara ef aðstæðurnar eru réttar. Síðasta vetur fór ég t.d. einn í bústað í nokkra daga og það voru einir bestu dagar sem ég hef átt í lengri tíma.

Sömu sögu er ekki að segja um nýliðna helgi. Ég var einn heima í svona 30 klst á meðan Lilja og stelpurnar kláruðu ættarmótið sem ég hrökklaðist heim af, og ég var allan tímann ónógur sjálfum mér. Stressaður, kvíðinn jafnvel, hausinn á tíu stöðum í einu, fann enga eirð og svaf illa. Mér fannst þær varla geta komið nógu fljótt heim og tók feginn á móti þeim um miðjan dag í dag. Þá var eins og sólin brytist fram undan skýjunum og restin af deginum var heiðskírt í höfðinu á mér. Mér leið ofsalega vel með fjölskyldunni minni.

Stundum er einvera það sem ég þarf og ég nýt hennar í botn. Stundum er ég ekki rétt stemmdur eða á nægilega góðum stað til að höndla tíma með sjálfum mér. Þá er um að gera að spyrja sig af hverju og vinna úr svörunum.


Annað: það rigndi í allan dag og ég tók því fagnandi. Við fjölskyldan erum öll (mismikið) nöguð inn að beini eftir helvítis lúsmýið, bæði í bústað og hér í hverfinu okkar, þessa vikuna. Ég vona að það rigni alla daga fram á haust. Helvítis lúsmý.

Þar til næst.