Kæri lesandi,

þriggja vikna sumarfríi (pt. 1) er lokið. Ég rauk á fætur snemma í morgun, svona þremur tímum fyrr en ég leyfði mér að vakna flesta daga í fríinu, hoppaði í sturtu og gerði teygjuæfingar fyrir bakið. Klæddi mig, heilsaði upp á köttinn sem svaf frammi í sófa, tók til dótið mitt og lagði af stað. Keyrði Fury Road alla leið suður í Sandgerði. Ég viðurkenni að það var gott að komast aftur í rútínuna. Eins og segir einhvers staðar, ef þú hatar mánudaga þá hatarðu í raun kapítalismann. Mér líður ekkert illa í vinnunni og hef átt ágætis dag hingað til.

Ég er sem sagt teinréttur eftir aflögn helgarinnar. Sviminn er farinn og ógleðin með, matarlystin er snúin aftur og mér finnst ég ekki jafn orkulaus og ég var í gær. Ég er hins vegar mjög svangur þar sem ég er að fasta, langt kominn með átján tíma föstu áður en ég fæ mér hádegismat. Fastan er hluti af rútínuvinnudeginum, hún fór fyrir ofan garð og neðan í fríinu eins og svo margt annað og því um að gera að koma því strax í vana að nýju. En ég er djöfulli svangur, það verður að segjast.

Annars hef ég ekki frá neinu áhugaverðu að segja. Engar pælingar, dagurinn hefur farið í að ná í skottið á mér í vinnunni eftir frí. Ég skal skrifa eitthvað skemmtilegt á morgun.

Þar til næst.