Kæri lesandi,

hálfur vinnudagur í dag. Hætti snemma og skellti mér austur fyrir fjall með pabba. Við settum rúður í skjólveggina sem hann smíðaði á pallinum við bústaðinn um daginn. Það gekk vel og við renndum þreyttir og sáttir heim um kvöldmatarleytið.

Í gærkvöldi byrjaði ég að lesa átta hundruð blaðsíðna doðrant sem Amazon sendi mér í pósti. Fantasíu í stíl ítölsku borgríkjanna, bók sem á að vera algjör klassík. Meira um hana síðar. Í dag byrjaði ég að hlusta á hljóðbók um Manson-morðin frægu. Ég spyr mig, hvenær er ég kominn með fullan haus af sögum og persónum? Á hvaða tímapunkti segir heilinn á mér, hingað og ekki lengra? Ég held að einn daginn muni ég lesa bók eða horfa á sjónvarpsþátt og ekki muna eftir neinu sem gerist. Og svo mun ég fatta að ég kem einfaldlega ekki meiru fyrir, að hausinn á mér er orðinn fullur af sögum og sögupersónum.

Eða kannski virkar þetta á hinn veginn, að um leið og maður les nýja sögu glatar maður þeirri elstu sem minnið geymdi? Maður spyr sig.

Þar til næst.