Kæri lesandi,

ég sá flugtak í morgun! Alveg satt. Ég var að koma að Fitjum í Reykjanesbæ og leggja á brattann upp Miðnesheiði (heh) þegar ég sá eina glæsilega Boeing-vél merkta Icelandair hefja sig til flugs beint fyrir framan mig. Ég hægði meira að segja aðeins á mér og fylgdist með henni þar til hún hvarf inn í skýjaþokuna sem er yfir Reykjanesinu í dag. Ég hugsaði um farþegana, hvort þetta væru útlendingar á leið til síns heima, sumir kannski eftir margra mánaða útlegð, eða hvort þetta væru að megninu til Íslendingar á leið í heimsóknir til fjarlægra landa? Bæði svörin eru til merkis um að tilveran er að verða eðlileg á ný, að samfélag mannanna hefur staðið þetta áhlaup af sér og náð vopnum sínum.

Í kjölfarið rifjaði ég aðeins upp nokkrar dagbókarfærslur frá mars- og aprílmánuðum. Fyrst fylgdist ég með fréttum, svo fór ég að verða myrkari í máli og sveiflaðist á milli þess að reyna að hugsa og skrifa um eitthvað annað (eins og bækur, eða sjónvarp, eða íþróttir, eða æsku mína) og þess að rýna í ástandið eins og það kom mér fyrir sjónir á hverjum degi. Á ákveðnum tímapunkti örvænti ég hreinlega, en svo fór smám saman að létta yfir færslunum hér aftur. Á einhverjum tímapunkti var botninum greinilega náð og maður fór að líta aftur upp fyrir sig, horfa á dagsetningar og markmið endurlífgunar, opnunar samfélagsins. Og svo kom sumarið og við Íslendingar önduðum léttar.

Auðvitað heldur fréttavaktin af þessu ástandi öllu áfram. Kórónaveiran er langt því frá búin og ég gæti alveg trúað að við þurfum að díla við einhvers konar seinni bylgju af henni í haust, vona þó ekki. Við fylgjumst með fréttum en þangað til er í lagi að njóta lífsins. Við erum á lífi, við höfum hvort annað og landið okkar sem bætir okkur upp langa og erfiða vetrarmánuði með vöxtum á sumrin. Nú er meira að segja farið að rigna smá, svona krúttlegur úði sem nægir til að vökva plönturnar og halda helvítis lúsmýinu í skefjum. Það er vel.

Ég svaf eins og steinn í nótt. Hreyfingarlaus, meina ég, vaknaði í morgun á sömu hlið og ég lagðist í gærkvöldi. Kannski hef ég hreyft mig eitthvað yfir nóttina, eflaust, en ég vaknaði áður en vekjarinn náði mér af því að ég var orðinn stífur í hálsinum og neðri öxlinni. Þannig að ég settist upp og andaði djúpt, gerði teygjuæfingar, hlustaði á regnið tifa á rúðunni. Svo stóð ég á fætur, renndi fótunum í inniskóna og gekk fram í stofu til að heilsa upp á köttinn. Suma daga vill hún ekkert með mig hafa svo snemma morguns en aðra daga virðist hún félagsskapnum fegin. Í morgun vældi hún hástöfum eins og til að skamma mig fyrir að hafa ekki leikið við sig í nótt. „Fjandinn hafi það, eigandi sæll, ég hef verið ein og mér hefur leiðst!“ sagði hún. Ég baðst innilega afsökunar og gaf henni nammi. Svo fór ég út að leita að flugvélum.

Þar til næst.