Kæri lesandi,

nett bugun í dag. Ég er búinn að vera mjög einbeittur í bæði föstunni og mataræðinu og það er að ræna mig … orku. Ég er vanari meiri sykri, meiri sterkju. Verra mataræði sem gefur falska orku. Þegar maður breytir til, tekur hluti út, er líkaminn alltaf þróttlaus á meðan hann venst breytingunum. Ég verð orkulaus í nokkra daga í viðbót og svo … ætti ég að upplifa endurnýjun. Endurhleðslu. Það er meiningin, allavega. Þess vegna er maður að þessu, til að líða betur, sofa betur, melta betur, anda betur, hugsa skýrar. En fyrst þarf að sigla í gegnum þokubakkann.

Ég er að endurglápa á Manhunt: Unabomber frá 2017. Hún var frábær þegar ég horfði á hana fyrir þremur árum, ein besta glæpasería sem ég hef séð, og nú er önnur sería að detta í sjónvarp hér á landi og mig langaði einhverra hluta vegna að rifja þessa upp fyrst. Svo er ég líka að horfa á Dark, þýsku tímaflakks/sci-fi/glæpaþættina á Netflix. Ég tek sjónvarp í lotum, horfi oft á 2-3 þáttaraðir af einhverju í röð og svo ekki söguna meir í mánuð, fram að næstu lotu. Ég virðist vera í miðri lotu núna.

Í dag fór ég og valdi mér ný lesgleraugu. Ég byrjaði að nota gleraugu fyrir fjórum árum, er með væga fjarsýni og sjónskekkju á vinstra auga. Þar að auki er ég með þurr augu eftir skjágláp, eflaust ekki sá eini sem þjáist af því í nútímasamfélagi. Þannig að ég þarf gleraugu við tölvuskjáinn og gleraugu við bækurnar. Ég keypti einhver ferköntuð ferlíki fyrir fjórum árum, rölti hálf dasaður út úr Kringlunni eftir tíma hjá augnlækni og hafði varla íhugað hvernig gleraugu gerðu migmér, og hef verið óánægður með þau síðan. Nema hvað, mér tókst í gær að brjóta þau eftir tæplega fjögur ár, og því fæ ég nú að eyða hátt í 60 þúsund krónum í ný gleraugu. Skítt með það, ég notaði allavega tækifærið og fann gleraugu sem gera migmér, að mér finnst. Skilgreina mig. Draga fram það besta í fari mínu. Gera mig að betri manneskju. Lyfta mér á hærra plan. Glansa svo að tekið er eftir!

Ég sæki gleraugun á morgun. Ég ætla að reyna að fá ekki hausverk við tölvuskjáinn á skrifstofunni fyrst. Gangi mér vel.

Þar til næst.