Kæri lesandi,
í dag er sautjándi júlí. Það er hásumar. Eða á allavega að vera hásumar. Þess í stað er appelsínugul viðvörun á vesturlandi öllu og ekki hundi út sigandi. Ég hafði það í roki og rigningu í vinnuna í morgun og bráðum legg ég á Brautina heim til mín á ný. En þetta má samt ekki svona um hásumar. Skamm, land!
Ég kláraði að endurglápa Manhunt: Unabomber þáttaröðina á Netflix. Hún er alveg jafn góð og í fyrra skiptið. Í tilefni af þessu endurglápi fór ég og las það sem ég skrifaði um seríuna þegar ég horfði fyrst á hana, í desember 2017, á dagbókarsíðu sem var keimlík þessari en entist ekki lengi (Aukalíf er sem sagt önnur tilraun síðuhöfundar til að skrifa bók um daga).
Mig langar að birta þau orð hér í dag þar sem þetta eru fínar pælingar hjá mér og ég stend eiginlega við allt sem ég sagði í desember 2017:
Kæri lesandi,
í gær kláraði ég lokaþáttinn af frábærri seríu á Netflix. Hún heitir Manhunt: Unabomber, og fjallar um stærsta leitarmál í sögu FBI að sprengjuvarginum sem kallaður var Unabomber og reyndist svo vera hinn stórgáfaði Ted Kaczynski. Þættirnir eru frábærir, margir góðir leikarar gera málinu skil og má sérstaklega hrósa Paul Bettany fyrir að hverfa inn í hlutverk hins margþætta Kaczynski, Sam Worthington sem leikur Jake Fitzgerald, FBI-greinandann sem raðar brotunum saman og Jane Lynch sem er afar sannfærandi sem Janet Reno, dómsmálaráðherra.
Gæði þáttanna þarf ég ekki að margræða hér. Ég er og hef ávallt viðurkennt að vera sjúkur í dramatískar endursagnir á málum raðmorðingja. Þetta er endalaust áhugavert efni, ekki síst þegar þáttagerðarmenn gefa sér tíma til að kanna sögu og bakgrunn og forsendur raðmorðingjans, eins og er raunin hér. Kaczynski er með áhugaverðari raðmorðingjum sögunnar að mínu mati, ekki bara af því að hann kaus að búa utan samfélagsins í tvo áratugi heldur af því að hann skrifaði og birti margar kenningar um það hvernig nútímasamfélag er á villigötum, kenningar sem erfitt er að mótmæla.
Í raun get ég alveg tekið undir flest það sem Kaczynski segir. Hann fer í öfgar með skoðanir sínar á tæknibyltingu síðustu aldar eða svo og blandar þeim öfgum saman við einhverja súpu af taóisma, búddisma og náttúrusókn. Manifestó Kaczynski, sem ég las einhvern tímann í den, er mjög vel upp sett og maður kinkar oft kolli, enda þótt þetta séu rúmlega tuttugu ára pælingar hjá honum hefur tækniframrásin síðan hann var loks handtekinn bara styrkt mál hans í þessum efnum.
En, þú veist, svo bjó hann líka til sprengjur og sendi þær í pósti á starfsfólk flugfélaga og háskóla víðs vegar um Bandaríkin. Þannig að það er enginn að fara að hengja upp einhver plaköt af Ted hérna.
Hvað um það. Hryðjuverkamenn hafa mér alltaf þótt mjög áhugaverðir af því að þeir eiga flestir sameiginlegt að vera bráðgáfaðir og að gáfur og/eða gagnrýnin hugsun þeirra gerir þeim illkleift að lifa á meðal fólks í eðlilegu samfélagi. Það verður eitthvað rof, þar sem skortur á samkennd og öðrum tilfinningum sem einkenna flest mannfólk spilar einnig stóra rullu, þar til þeir hafa sannfært sjálfa sig um að sín vegna eða annarra vegna verði þeir að fremja reglubundin hroðaverk. Þetta eru einfaldlega áhugaverðir karakterar og það að reyna að skilja raðmorðingja dýpkar skilning fólks á heiminum í kringum sig. Það er bara þannig.
Ég hef reyndar ekki alveg skilið hvers vegna íslenskir spennusagnahöfundar hafa ekki reynt að skilja raðmorðingja. Nánast á hverju ári koma út tvær eða þrjár raðmorðingjasögur í bókaformi hér á landi en spennusagnahöfundar hafa nákvæmlega engan áhuga á að tækla áhugaverðasta hluta raðmorðingja, það er margslunginn persónuleikann. Þess í stað eru raðmorðingjum gefnar upp samfélagslega móðins ástæður fyrir morðum sínum. Móðir myrðir unga menn til að hefna fyrir einelti sem sonur hennar varð fyrir, kona drepur þjóðþekkta karlmenn einn af öðrum þar til í ljós kemur að þeir hópnauðguðu henni í den, og svo framvegis.
Aldrei skrifar íslenskur höfundur um raðmorðingja sem drepur af því að raddirnar í höfðinu segja honum það, eða af því að hann getur ekki sleppt því að myrða. Eða, það hefur einu sinni verið reynt hér á landi og það var undirritaður sem skrifaði þá bók. Ég væri til í að sjá fleiri spreyta sig.
Svo eru það kenningar Kaczynski. Ég hugsa oft um það hversu mikið þægilegra líf mitt væri ef ég væri ekki jafn háður nútímatækninni og raun ber vitni (vík burt Apple-snjallúr!). Oft. En svo man ég að fólk myndi halda að ég væri dauður ef ég svaraði ekki skilaboðum snarlega og/eða deildi áföngum í lífi mínu með fólki á Facebook. Og svo man ég hvað það er þægilegt að geta Gúglað hvað sem er jafnóðum og manni dettur það í hug. Og þá gríp ég um buxnavasann utanverðan og anda léttar þegar ég finn fyrir snjallsímanum á sínum stað.
Það er allt of gróf lausn að ætla að fela sig úti í skógi í pínkulitlum viðarskúr án rennandi vatns og salernis, lifandi á landinu. Kannski læt ég mér nægja á nýju ári að segja skilið við Facebook, eða Snapchat, eða Twitter. Eða kannski er kominn tími til að stofna reikning á LinkedIn.
Þar til næst.