Kæri lesandi,

ég sótti nýju gleraugun mín í gær eftir vinnu. Hef verið að nota þau síðan, segi ekki venjast því það á ekki við. Ég valdi svo vel að um leið og þau fara upp líður mér eins og þau hafi alltaf verið þarna. Ég sé skjái og blaðsíður skýrar en nokkru sinni fyrr. Hvernig öðlast ég sömu skerpu á tilveruna?

Fólk hefur verið að gefa álit. “Eru þau ekki of lítil?” spurði eiginkonan mig þegar hún sá mynd. Ég sagði “nei” og pantaði þau samt. Svo sá hún þau á mér í gær og sagði “nei þau eru passleg og fara þér ofsalega vel.” Svo gaf hún mér koss. Dagurinn sem hrós og kossar frá henni hætta að vera stórkostlegir viðburðir er dagurinn sem ég panta mér miða aðra leiðina með næsta skipi frá Gráhöfnum í Miðgarði.

Aðrir hafa gefið álit. “Þú ert eins og arkitekt,” sagði ein frænkan. “Sætur pabbi,” sagði yngri dóttirin. “Þú ert alltaf að reyna að vera gáfulegur,” sagði sú eldri og smættaði mig þar með niður í mína einföldustu, tvívíðu mynd eins og henni einni er lagið. “Kúl,” sagði vinur minn af svo miklu stuðnings- og áhugaleysi að ég íhuga hvort vinskapnum sé viðbjargandi. Sjálfur lít ég í spegil og sé … sama kartöflupokann og alltaf, nema nú er hann með passleg gleraugu á nefinu.


“I recognize every face,

but I ain’t got everything I need

if I’m just living in the space between

the beauty and the pain.

It’s the strangest thing.”

Ég hef verið að hlusta mikið á þetta lag með The War On Drugs í sumar, “Strangest Thing”, af stórgóðri plötu sem kom út fyrir þremur árum. Ég tengi við svo margt á þessari plötu, tjáningu manns sem virðist hafa falið sig fyrir heiminum, falið sig í faðmi hamingju og uppfyllandi tilveru. Þrátt fyrir hamingjuna saknar hann undarlegu atburðanna, þess sem hreyfir nálina. Þetta lag talar við mig, blæs mér í brjóst.

Ég horfi á alla vini mína á samfélagsmiðlum ferðast um Ísland. Svo les ég aðra bók. Faðma fjölskylduna. Hlæ með vinum. Baða mig í hamingjunni, djúpt sokkinn í tómarúminu milli fegurðar og örvæntingar. It’s the strangest thing.

Eða er það kannski fortíðin sem við þráum? Þegar við sannfærum okkur sjálf um að fegurðin sé ekki næg vörn gegn örvæntingunni? Er það af því að við lítum stöðugt til baka, hvar okkar eigin minningar hafa tálgað allt óþægilegt utan af okkar bestu minningum? Leiddist mér ekki stundum líka heima hjá ömmu og afa? Var ekki líka flókið að vera ungur maður? Grét ég mig ekki stundum í svefn eins og önnur börn? Hvað er það þá sem ég tel mig hafa misst?

Ég veit það ekki. Þar til næst. Kannski.

Þar til næst.