Kæri lesandi,

í dag fór ég tvisvar í göngutúr. Í bæði skiptin hlustaði ég á Bitches Brew, plötu Miles Davis. Ég er sem sagt að gera enn eina tilraunina til að “fatta” djass. Þetta er ein frægasta og fræknasta plata í sögu djasstónlistar og … þetta hreyfir ekki við neinu hjá mér. Ég skil ekki af hverju. Djass er eins og kaffi, allir aðrir sverja að þetta sé ómissandi en ég skil ekkert. Ég held áfram að hlusta á Bitches Brew á morgun. Kannski ljúkast dyrnar upp á gátt og töfrarnir blasa við mér þá. Kannski ekki.

Ég er einn í vinnu þessa vikuna. Hinir tveir eru í sumarfríi, úti á landi báðir tveir. Það er sæmilega rólegt í vinnunni eins og á hverju ári þegar líður á júlí. Kúnnar eru í fríi, fyrirtæki lokuð, hálfgerð lágdeyða yfir þessu öllu. Ég sinni mínu og tek því sem kemur, hef alveg nóg að gera þrátt fyrir allt. En það er undarlegt að gera það einn á þessari skrifstofu sem er allt of stór fyrir okkur þrjá til að byrja með. Ég kveiki ekki á öllum ljósum, borða hádegismatinn minn í þögn, stend upp á klukkutíma fresti og geng að glugganum, horfi út um hann og dæsi. Svo sest ég niður og held áfram í þegjanda hljóði.

Þannig líður tilveran. Ég bærist varla í kyrrðinni, geng um hverfið mitt með kisu með mér, horfi á fótboltaleiki, elda mat og tek til, raka hár og skegg til skiptis, reyni að skilja djass. Fyrir utan sápukúluna mína virðist öll veröldin að vera að fara til fjandans á mettíma. Ég les fréttirnar og fylgist með en þetta nær ekki undir þykkan skrápinn, þar sem kyrrðin ríkir. Kannski er djassinn eins og fréttirnar, ég næ þessu á vitsmunalegu plani en þetta kemst ekki að hjartanu. Þú ert ekki vandamálið, Miles, heldur ég. Kannski.

Þar til næst.