Kæri lesandi,
ég hef verið með móral í allan dag. Mér finnst ég skulda þér færslu gærdagsins. Og hvað gerðist svo, spyrðu kannski. Ég skal segja þér það. Ég var með fjögur umfjöllunarefni sem ég ætlaði að drepa á, fyrst ég hafði ekki frá neinu persónulegu að segja (eða svo hélt ég). Ég ætlaði að minnast þess að í gær voru liðin níu ár frá hryðjuverkunum í Osló og Útey, að í dag eru liðin níu ár frá dauða Amy Winehouse, að Íslendingar hafa eytt vikunni í að rífast um Kópasker og Raufarhöfn með tilheyrandi hótunum og dólgslátum af því að ein leikkona sagði mislukkaðan brandara um veðrið á NA-landi, og loks ætlaði ég að koma aðeins inn á sturlaða áætlun ríkisstjórnar BNA um að reka börn og kennara í skólann aftur í ágúst, þótt kórónavírusinn sé enn að ná nýjum hæðum vestan hafs. Ég ætlaði að fjalla um bók Åsne Seierstad um Osló/Útey, Einn af okkur, sem ég las fyrir nokkrum árum. Ég ætlaði að fjalla um Amy, frábæra heimildarmynd um líf og dauða söngkonunnar sem snart mig djúpt fyrir nokkrum árum. Og ég ætlaði að vísa í frábæra grein rokkarans Dave Grohl um skólamálin vestra, en móðir hans er kennari.
Ég settist niður og byrjaði að vélrita, orðin skiluðu sér með auknum hraða á skjáinn, flæðið var slíkt að fyrr en ég gat varnað því var ég búinn að tengja þessar fréttir yfir í ansi persónulegar pælingar. Ég hætti þó ekki heldur hélt áfram að skrifa, stundum virkar flæðið þannig að maður tekur útúrdúr en verður að klára hann til enda, ellegar liggja andvaka næstu nótt. Þannig að ég komst til botns í útúrdúrnum og sat svo bara hálf sjokkeraður og starði á skjáinn. Las yfir það sem ég hafði skrifað, djúpar og mjög persónulegar pælingar um einkamál, uppgötvanir sem ég hafði gert einhvers staðar djúpt í flæðinu. Ég hafði skrifað niður eitthvað sem ég hafði ekki áttað mig á um sjálfan mig fyrr en ég skrifaði það. Þetta gerist ekki oft, en þegar það gerist er tilfinningin ótrúleg. Það er erfitt að lýsa því, þessari blöndu af agndeyfð yfir því að þetta hafi gerst og sársaukanum sem vellur út um sárið sem maður var að opna.
Ég starði á orðin eins lengi og ég þorði. Svo strokaði ég þau öll út, skrifaði nokkrar setningar í staðinn á hálfgerðri sjálfsstýringu, birti færsluna og stóð upp frá tölvunni. Ég svaf eins og ungabarn um nóttina og hef séð allt svo skýrt í dag. Svo skýrt. En því miður kom aldrei til greina að leyfa tímamótaskrifunum að standa. Sumt setur maður ekki á netið.

Liverpool eru Englandsmeistarar. Ég fjallaði um þá staðreynd fyrir þremur vikum, þegar hún var staðfest eftir allt of langa bið (þrjátíu ár, en líka síðan allt stöðvaðist í marsbyrjun þegar það var bara formsatriði að tryggja þetta tölfræðilega séð). Ég ætla ekki að endurtaka mig hér.
Í gær fékk liðið bikarinn loks afhentan, eftir síðasta heimaleik tímabilsins (5-3 sigur á Chelsea, sem þýðir að liðið tók við Englandsmeistarabikarnum með 96 stig á toppi deildarinnar, mjög viðeigandi tölu fyrir alla sem þekkja eitthvað til Liverpool). Það var frábær stund, langþráð og það var alveg dásamlegt að geta glaðst yfir þessu öllu og sjá menn dansa með dolluna langþráðu.
Knattspyrna, eins og aðrar íþróttir, er í eðli sínu slík að allt snýst um næsta leik, næsta mót, næstu úrslit, næsta markmið. Jafnvel þegar sigur vinnst og bikarinn er í höfn þá snýr fólk sér strax að næstu atlögu að sama bikar. Það er alltaf eitthvað framundan. En þá er líka mikilvægt að staldra við þegar árangurinn er í höfn, líta í kringum sig, anda djúpt og leyfa sér að brosa. Liverpool eru nú ríkjandi Englandsmeistarar, Evrópumeistarar, Súper-meistarar Evrópu og Heimsmeistarar félagsliða. Þetta ku vera í fyrsta skipti sem enskt lið ber alla fjóra titlana í einu, sem er magnað. Í ágúst verður leikið hraðmót til úrslita í Meistaradeildinni í ár, og Liverpool eru dottnir úr leik þetta árið eftir að hafa alltaf farið í úrslit Evrópukeppni undir stjórn Jürgen Klopp. Það þýðir að eftir mánuð þarf liðið að skila meistaratigninni í Evrópu, og svo í september skilar það Súpertigninni líka. Það er ekki víst hvenær hægt verður að spila næstu Heimsmeistarakeppni félagsliða svo að liðið fær að halda þeirri nafnbót um sinn, og nýkrýndir Englandsmeistarar geta notið þeirrar nafnbótar fram í maí á næsta ári, hið minnsta.
En næsta mánuðinn er þetta lið fullkomið. Allir okkar draumar hafa ræst, húsið er fullt og hjartað líka. Þennan mánuð ætla ég að staldra við, líta í kringum mig, anda djúpt og leyfa mér að brosa eins mikið og ég get. Ég er staddur í himnaríki stuðningsmannsins, ég held á farmiða úr himnaríki en ég á allavega mánuð eftir áður en mér verður vísað á brott. Ég ætla að njóta hverrar mínútu.
Þar til næst.