Kæri lesandi,

ég var að klára að mála, laust fyrir miðnætti. Þetta var þriðja lotan af þremur í hvítri málningu. Nú erum við búin að mála alla veggi í sameiginlegu rými hvíta, allt loftið hvítt og annað barnaherbergið. Við eigum eftir tvo gluggaveggi í stofunni, nú þarf að velja einhverja fallega liti á þá … aðra en hvítan. Við klárum það í rólegheitum um þarnæstu helgi eða eitthvað, og þá eru penslarnir endanlega komnir niður. En stærsta verkinu er lokið, allt sem átti að verða hvítt er orðið skjannahvítt. Og mig verkjar í axlirnar og hálsinn eftir að rúlla allt loftið hér inni. En maður er glaður að góðu verki loknu, ég lagði líka áherslu á að keyra þetta bara í gegn strax eftir vinnu á föstudegi svo ég gæti átt restina af helginni í skemmtilegu hlutina.

Talandi um, ég er víst að fara í útvarpið í hádeginu á morgun að blaðra um fótbolta, þar sem ég á meðal annars að kynna lið ársins í ensku Úrvalsdeildinni. Ég þarf að leggjast í smá rannsóknarvinnu fyrir svefninn.

Þar til næst.