Kæri lesandi,
ég fór inn í Reykjavík í dag og tyllti mér í stúdíó X-ins, spjallaði við þá Elvar Geir og Tómas Þór í útvarpsþætti Fótbolta punktur net. Við gerðum upp ensku Úrvalsdeildina og ég tilkynnti um val mitt á liði ársins. Liðið sem ég valdi er svona:

Ég er þegar farinn að fá yfirdrullu á Twitter af því að ég valdi ekki Hetju X í liðið í staðinn fyrir einhvern þeirra sem ég valdi. Maður getur ekki gert öllum til geðs, það er bara þannig.
Mér finnst þetta fínt lið, samt. Ég náði að stilla mig og velja bara fjóra af ellefu úr röðum Liverpool, og þjálfarann að sjálfsögðu, þrátt fyrir magnaða deildarkeppni minna manna. Í þessu liði eru fulltrúar sjö Úrvalsdeildarfélaga, sem verður að teljast góð dreifing.
En allavega, enski boltinn klárast á morgun með stórri lokaumferð. Ég ætla að fara (aftur) inn í Reykjavík og horfa á lokaleikina með Fiffa vini mínum. Hann er grjótharður United-aðdáandi svo að ég verð að brjóta odd af oflæti mínu og styðja hans menn í það skiptið. Ég geri mitt besta.
Í dag fékk ég mér ís, enda fyrsti nammidagur í næstum tvær vikur hjá mér, og svo horfðum við Gunna á Independence Day í kvöld. Það var gaman að sjá dóttur mína missa sig yfir spennu og hasar þeirrar myndar. Þetta eru litlu hlutirnir sem geta gefið lífinu lit.
Nú laust fyrir miðnættið gekk ég svo hring um hverfið og kallaði á köttinn minn, freistaði hennar með nammi en allt kom fyrir ekki. Hún hefur farið í einhverja lengri ferð í dag og ekki komið heim síðan fyrir hádegi, sem er óvanalegt fyrir þennan næstum-því-húskött okkar. Ég er svo sem slakur yfir þessu, hún gerir þetta af og til, nema að stelpurnar voru að farast úr stressi þegar leið á kvöldið. Ég býst fastlega við að hún sitji og væli fyrir utan svefnherbergisgluggann minn í nótt, veki mig þannig og fái mig til að hleypa sér inn. Það er venjan.
Þar til næst.