Kæri lesandi,

dagurinn hófst á fjaðrafoki; kötturinn okkar, Tinna litla, var týnd! Hún skilaði sér ekki heim í gærkvöldi og þegar þessi mikli innipúki var búin að vera í sólarhring að heiman (og það í rigningu) var dætrum mínum öllum lokið. Sú eldri fór hring á rafskútunni sinni og svo keyrði ég með hana enn stærri hring um hverfið. Hún hafði miklar áhyggjur og ég þurfti að hafa mig allan við til að róa hana, sagði henni að kettir væru sjálfstæðir og þótt auðvitað væru slæmir möguleikar í stöðunni væri líklegast að hún hefði komist einhvers staðar inn og væri bara að kúra í ókunnugum sófa í hverfinu.

Köttinn fundum við þó ekki. Ég fór svo út um tvöleytið, inn í Reykjavík í sannkallaða skemmtidagskrá. Um fjögurleytið fékk ég þó símtal frá himinlifandi dóttur sem sagði að Tinna hefði rölt í makindum inn um dyrnar eins og ekkert hefði í skorist, södd og með einhverja skrýtna lykt á feldinum sem þær systur og konan mín töldu líklegast vera húslykt frá öðru heimili. Þar með var sú ráðgáta leyst og fimmti meðlimur fjölskyldunnar heimtur úr helju, öllum til mikils léttis.


Ég fór og horfði á lokaumferð enska boltans með Fiffa vini mínum inni í pakkfullri Egilshöll. Þar var mikil stemning enda margt í húfi á báðum endum töflunnar. Að leikjum loknum fórum við svo yfir í nýja mínígolfið í Sundahöfn. Þar borguðum við sex þúsund fyrir níu holu braut, og það allt frekar auðveldar og litlausar holur, sem okkur fannst full dýrt. Svo fór að Fiffi hafði betur, sigraði mig með einu höggi:

Eftir á settumst við á barinn þarna og horfðum á markasyrpu yfir drykk. Það var aðallega fjölskyldufólk þarna inni en við sáum fjóra frekar fulla vini setjast niður fyrir framan okkur. Svo fóru þeir að slást og rífast, alveg fokheldir klukkan að ganga sex á sunnudegi. Einn þeirra kom svo auga á okkur Fiffa og gaf sig á tal við okkur, sníkti munntóbak af Fiffa og bauð okkur kókaín í staðinn ef við færum með honum inn á klósett. Við afþökkuðum og ákváðum að skilja þessa vandræðagemsa svo eftir. Ég viðurkenni fúslega að ég átti ekki von á að vera boðið kókaín í mínígolfi þegar ég fór framúr í morgun.

Loks fórum við í bíó í Álfabakka, á stríðsmyndina The Outpost með Orlando Bloom, Scott Eastwood og fleirum. Hún byggir á sannsögulegum atburðum frá 2009 og segir frá raunum hersveitar sem reynir að verja taktískt mikilvægt skarð í fjöllum Afganistan fyrir Talíbönum. Þetta var fín mynd, ekkert stórvirki en kom sögunni vel til skila. Það var ekki beint þægilegt að horfa á hana, enda ansi blóðug frásögn eins og oft vill verða með sannar stríðssögur. Stundum finnst mér allar stríðsmyndir vera að reyna að standast samanburð við Saving Private Ryan í sjokkinu, þegar það mætti staldra við og segja fleiri sögur af því af hverju í fjandanum fólk býður sig fram í svona geðveiki. Þetta endar alltaf í áróðri fyrir Bandaríkjaher, þannig. Ömurlegt líf, hrikalegt tráma, en hugrekki! og hetjudáð! og hetjur! og freedom yeah! Góð mynd, samt.

Þar til næst.