Kæri lesandi,

ég fór á fótboltaleik í gærkvöldi. Heimaleik FH gegn Gróttu í efstu deild karla í knattspyrnu, í Kaplakrika. Fyrir utan stöku landsleik og Liverpool-ferð var þetta í fyrsta sinn síðan sumarið 2016 sem ég fór og sat á knattspyrnuvelli. Í fyrsta sinn í fjögur ár síðan ég fór á heimavöllinn sem trónir yfir bænum mínum, staðinn þar sem ég ólst hreinlega upp. Þegar ég var yngri æfði ég bæði fótbolta og handbolta hjá FH, hékk löngum stundum uppi á velli eða í Sjónarhóli, fór á alla leiki sem ég gat. Ég átti heima í götunni við hliðina á vellinum, svona 250 metra í burtu, þannig að ég var alltaf þarna.

Það var skrýtið að koma á völlinn í gær. Fátt hafði breyst, innviði hússins og stúkan og völlurinn, allt eins og það hefur alltaf verið. Ég sá fólk í stúkunni sem ég þekki en hafði ekki séð lengi. Það hefur elst. En heilt yfir var ágætis tilfinning að setjast í stúkuna í sólskininu og horfa á knattspyrnuleik. Fyrir leik fengum við reyndar skelfilegar fréttir, gamall íþróttakennari minn úr Lækjarskóla og knattspyrnuþjálfari hjá FH var bráðkvaddur á heimili sínu í síðustu viku, aðeins sextugur að aldri. Sextíu ára ertu of gamall til að vera ungur en of ungur til að vera gamall, og á leiðinni á þessi eftirlaunaár þar sem þú átt að geta slakað á og notið lífsins með fjölskyldunni, spilað golf fyrir hádegi á virkum dögum og verið á Spáni yfir vetrarmánuðina. Síðasta mynd sem þessi maður setti inn á Feisbúkkið sitt var sett inn þann 30. júní, mynd af honum með afastrákunum sínum í veiði. Og nú er hann farinn.

Þetta var auðvitað sorglegt. Við sem þekktum hann vorum slegin yfir tíðindunum og það var þung stund þegar liðin stilltu sér upp og héldu mínútuþögn honum til heiðurs. Mér varð hugsað til dóttur hans sem var bekkjarsystir mín í Verzló, hún missti manninn sinn við svipaðar aðstæður fyrir nokkrum árum og nú er faðir hennar farinn líka. Slíkur harmur.


Leikurinn fór 2-1 fyrir FH, gegn liðinu sem á að heita lélegasta lið deildarinnar. Gróttumenn sýndu engu að síður kraft og djörfung og hefðu hæglega getað tekið eitthvað úr þessum leik. Nýju þjálfarar FH hafa núna tekið 7 af fyrstu 9 stigunum í boði og þetta tímabil er galopið hjá mínum mönnum, en ég viðurkenni að þeir verða að spila betur en þetta ef árangur á að nást í sumar.


Í gær lauk ég svo við nýútkomna bók, Axiom’s End, eftir Lindsay Ellis. Ellis er frægur JúTjúbari, hvar hún birtir myndbandsesseyjur um kvikmyndir, bækur, Disney-prinsessur og ýmislegt fleira úr poppkúltúr. Esseyjurnar hennar eru frábærar þannig að þegar ég sá að hún var að gefa út skáldsögu leist mér vel á og keypti strax rafrænt eintak. Bókin kom út í síðustu viku og ég hef dundað mér við að lesa hana síðustu daga.

Axiom’s End segir frá Coru, ungri konu um tvítugt sem stendur á tímamótum í sínu lífi. Fjölskylda hennar hefur mátt þola ýmislegt síðustu ár, faðir hennar er í felum í Þýskalandi og er orðinn eins konar Julian Assange, frægur fyrir að leka viðkvæmum skjölum um Area 51, meint samband við geimverur og meinta vitneskju forsetans um þessa atburði. Líf hennar fer enn meira á hvolf þegar hún kemst í samband við eina geimveruna sem hálfpartinn velur hana til að vera sinn túlk í samskiptum við mannkynið. Geimverur eru komnar til jarðarinnar, við erum ekki ein í alheiminum og Cora er föst á milli flókinna ættbálkaerja og bandarískra yfirvalda.

Þetta er áhugaverð saga, vel útpæld og fléttuð. Ellis kynnir hér til sögunnar skemmtilega útgáfu af geimverum, sennilegri en margt sem maður hefur lesið í þeim efnum, og pælingarnar um tungumál og náttúrulögmál (til dæmis, myndu háþróaðar geimverur sjá okkur sem persónur eða dýr?) eru mjög áhugaverðar. Það er svolítill byrjendabragur á textanum, stundum kauðskt orðaval eða klaufalegar setningar og ég var kannski ekki hrifin af öllum fléttubrögðum Ellis en á heildina litið var þetta skemmtileg bók. Henni svipar svolítið til Sea of Rust eftir C. Robert Cargill sem ég las fyrir tveimur árum. Hvorug þessara bóka tekur sig of alvarlega, þær vilja vekja þig til umhugsunar en þær vilja líka skemmta þér. Sea of Rust er þó betur skrifuð, enda Cargill reyndari höfundur svo að ég fyrirgef Ellis byrjendabraginn. Þetta er víst fyrsta bók í fimm bóka flokki, ég kem til með að lesa þá næstu og sjá hvernig bæði sagan og höfundurinn þróast.

Þar til næst.