Kæri lesandi,
nú horfir til verri vega. Innanlandssmitum fjölgar á ný og fólk er uggandi yfir ástandinu. Hinir verr upplýstu hrópa um að loka landamærunum á útlendingana sem smita okkur, þegar hið sanna er að flest þessara smita eru að koma með Íslendingum til landsins. Og nú erum við farin að smita hvert annað innanlands, eins og forðum daga. Sumarið virðist á undanhaldi og seinni bylgjan nálgast strendur landsins. Andlitsgrímurnar mínar eru í tollinum, ég tók þá upplýstu ákvörðun í júní að panta grímur fyrir alla fjölskylduna, fullviss um að það yrðu settar haftir á samkomur þegar haustið drægi nær og jafnvel grímuskylda á búðarferðir og slíkt. Nú er búist við að hertar aðgerðir verði kynntar í dag eða á næstu dögum og við verðum einfaldlega að setja okkur aftur í plágustellingar.
Þetta er kannski ekki óvænt, og boðar að sjálfsögðu engan heimsenda, við þurfum bara aðeins að herða tökin til að fletja þessa litlu kúrfu strax, kæfa þennan uppgang í fæðingu. En þetta er samt þörf áminning á að það geisar enn faraldur, eitthvað sem ég held að margir Íslendingar hafi verið búnir að gleyma. Ég hef allavega verið litinn hornauga í hönskunum mínum í sumar, og hlakka til að fá skrýtnar augngotur þegar ég versla í matinn með nýju andlitsgrímuna mína. Ég tek þær augngotur frekar en virkt smit, takk fyrir kærlega.
Við buðum nágrönnum okkar í grill í gær. Þetta eru hjón úr næsta húsi, við höfum kynnst þeim vel af því að yngri dóttir mín leikur mikið við dætur þeirra og við höfum verið að skiptast á að passa og/eða leyfa börnunum að vera hjá okkur. Þá tala foreldrarnir eðlilega saman. Nema hvað, í gær komu þau í grill og við áttum góða kvöldstund. Spjölluðum um ýmislegt. Þegar leið á kvöldið kom svo í ljós að þau eru dúett á fleiri sviðum en ástar og fjölskyldu því þau syngja saman. Tónlist þeirra er á Spotify og allt. Ég kom af fjöllum, og þau voru álíka hissa að heyra að ég væri útgefinn rithöfundur. Þau fóru heim með gefins eintak af skáldsögunni minni, og nú sit ég á skrifstofunni suður með sjó og hlusta á tónlistina þeirra. Þetta er rosalega fínt stöff, þau kalla sig Above the lights. Íslendingar eru upp til hópa skapandi fólk.
Þar til næst.