Kæri lesandi,

enn fór ég til læknis í morgun, fékk niðurstöður úr blóðprufu sem ég fór í fyrir tveimur dögum. Þetta tengist svimanum sem ég lenti í fyrir þremur vikum, sem eyðilagði ættarmótshelgi fyrir mér. Nema hvað, þetta tvennt tengdist ekkert eftir allt saman, allar niðurstöður blóðprufunnar góðar og eðlilegar. Ég er bara eitthvað skrýtinn að fá svona svima og ógleði. Og kannski er ég bara orðinn of stressuð týpa yfir heilsunni eftir fótbrotið í fyrra, mála skrattann á vegginn við minnsta tilefni og panta tíma hjá lækni. Ég sem var einu sinni týpan sem fór helst aldrei ótilneyddur.

Að læknatíma loknum fór ég í skimun hjá rannsóknarmiðstöð í Smáraturninum. Fékk SMS-boð um að bóka tíma í gær, lenti í einhverju úrtaki vegna Covid-19. Þetta gekk mjög fljótt fyrir sig, þegar ég kom að var röð út á götu sem mér leist ekkert á en það reyndist vera vegna þess að það er skammtað í lyfturnar upp á fjórðu hæð. Fimm mínútum síðar var ég kominn út, snerti aldrei nokkurn skapaðan hlut í húsinu og þetta var minna en ekkert mál. Mjór pinni upp í nef og annar í kokið, svara fjórum spurningum og bless. Nú bíð ég eftir niðurstöðum, vona auðvitað að mér verði tilkynnt að ég sé bara ónæmur fyrir veirunni og allt mitt fólk líka. Það verður þó vitaskuld ekki. Langlíklegast er að ég sé einfaldlega neikvæður, enda sannfærður um að ég hefði tekið eftir því ef ég hefði fengið veiruna í vor.

Í kjölfarið kom ég á skrifstofuna og horfði á upplýsingafund dagsins, hvar ráðherrar og þríeykið góða kynntu hertar aðgerðir vegna aukinna smita hér á landi. Nú mega aðeins hundrað manns koma saman, andlitsgrímurnar eru orðnar skylda á stöðum (ég vissi’ða!) og svo framvegis. Aftur fer maður að sótthreinsa eftir sig og ganga um í hönskum, af því að maður á alltaf að hegða sér eins og maður bæði vilji ekki fá veiruna né smita aðra. Þetta er ekki búið og ef við högum okkur skynsamlega getum við gert lítið úr þessu eins og í vor. Koma svo!

Við stefnum engu að síður á að fara á Arnarstapa um verslunarmannahelgina. Fjölskylda konunnar minnar ætlar að koma saman þar, sex pör og svona þrettán krakkar, um 25 manns. Við verðum í stóru húsi á Arnarstapa en við Lilja sofum svo í litlu gistihúsi, tveggja manna skála, hinum megin við götuna. Það verður bara kósý og við brjótum á engan hátt neinar reglur með því að slaka á með fjölskyldunni, spila og lesa og fara í bíltúra um Snæfellsnesið. Þetta verður kannski líka nauðsynlegt, fyrst mér sýnist við verða meira og minna heima hjá okkur í ágúst.

Þar til næst.