Kæri lesandi,

þetta er skrifað í litlu gistihúsi á Arnarstapa. Fyrir utan rennihurðina blæs Atlantshafið upp með berginu og inn á milli hólmanna. Kríurnar fljóta um í hviðunum og leita að mannfólki til að rífa kjaft við. Konan mín fléttar hár dætra okkar svo að þær geti sofið fyrir flókanum. Ég hlusta á tónlist og hendi reiður á hugsanir mínar.

Skimunin í gær tók fljótt af og niðurstöðurnar komu um hæl. Ég er ekki með Covid-19. Ekkert var minnst á mótefni eða slíkt í niðurstöðum, og ekki er víst hægt að biðja um frekari útskýringar, þannig að áfram læt ég mig dreyma um ónæmi og frelsi frá því að þurfa að hugsa um heimsfaraldur á hverjum degi. Ég er langt því frá einn um slíka drauma.

Við keyrðum hingað norður og niður á Arnarstapa í dag í talsverðu roki og umferð. Ekki jafn þungri umferð og er venjulega á föstudegi verslunarmannahelgar, en samt. Þetta gekk þó sæmilega fyrir sig, við vorum komin á Stapann um þremur tímum eftir að við lögðum af stað. Það er ágætt. Veðrið hefur svo haldið okkur innandyra í dag en við erum á staðnum, það var aðalverkefni föstudagsins, svo að hægt er að njóta morgundagsins frá byrjun í stað þess að eiga aksturinn eftir. Það spáir jú líka betra veðri á morgun, líklega endum við inni í einhverjum helli eða niðri í fjöru. Það er fátt annað að sjá á Snæfellsnesi, ekki þegar við þurfum að forðast fjölmenni.

En nú er ég orðinn þreyttur eftir langan dag. Ég ætla að sjá hvernig gengur að sofa í þessu litla gistihúsi með rennihurð.

Þar til næst.