Kæri lesandi,
í morgun sat ég og borðaði morgunverð á meðan hópur af börnum lék sér í kringum mig. Ég sat í gamaldags borðstofu og rifjaði upp að fyrir tólf árum, þegar ég gisti síðast á Arnarstapa, sat ég í þessu sama herbergi og las Maður í myrkri eftir Paul Auster. Ég hafði þá ekki lesið Auster frá unglingsárum en þarna kviknaði ljós í höfðinu á mér og ég átti eftir að drekka í mig megnið af biblíógrafíu hans árin á eftir. Nú hef ég lesið meirihluta verka hans og stefni á að klára þau, en það hófst allt í þessari gömlu borðstofu í húsinu sem gnæfir yfir höfninni á Arnarstapa.
Í kjölfarið leiddi hugurinn mig frá einu í annað og mér datt í hug önnur skáldsaga sem hafði að geyma einhverja lífslexíu. “Alveg rétt, ég ætla að skrifa um þetta á Aukalíf síðar í dag,” hugsaði ég með mér og lagði þessa pælingu frá mér. Svo leið dagurinn, og stuttu eftir kvöldmat í kvöld, þegar ég ætlaði að rifja þessa hugljómun upp og byrja að hnoða hana í ritað mál gat ég ómögulega munað hana. Hvaða atriði var þetta, og úr hvaða bók, sem ég man eftir að hafa hugsað um í morgun? Ég kem því ómögulega fyrir mig. Þetta er farið. Það er engu líkara en að þessi hugljómun hafi öðlast einhverja lausn við það að komast að í morgun og ég hafi gert þau mistök að gera ráð fyrir að hún myndi doka við þegar hún hefði lokið skylduverkum sínum. Svo þegar ég ætlaði að ganga að henni vísri greip ég í tómt. Hún er farin á vit feðra sinna, og ég efast um að ég muni nokkuð úr þessu. Fjandans.
Litla ættarmótið gengur vel. Veðrið stríður okkur, rok og rigning alla helgina, krakkarnir hlaupa þó um allt og láta hvorki veðrið né kríurnar stöðva sig. Það er fyrir mestu, þau njóta þess að vera saman, og við fullorðna fólkið njótum þess líka að hittast. Samt er stundum eins og mér finnist ég á skjön við hitt fólkið, bæði hér og fullorðinshópa almennt. Það er eitthvað á bak við eyrað sem hindrar mig í að gefa mig hópeflinu á vald. Ég drekk ekki bjór og kaffi, ég ræði ekki brugg og bíla, ég hlusta ekki á Helga Björns í margmenni. Þetta eru algjör smáatriði, þannig séð, en eftir því sem ég eldist þarf ég að hafa mig meira við að zóna ekki út og enda utanveltu í fjöldanum. Kannski er ég með Asperger-heilkenni eða eitthvað álíka, kannski er þetta eitthvað annað. Ég er allavega fullviss um að ég er vandamálið. Ég horfi á annað fólk njóta bjórdósa, syngja “Það bera sig allir vel” og vera létt og … það er eins og ég sé að horfa á þetta í gegnum rúðuna, standandi fyrir utan. Ég tengi lítið við þetta, jafnvel þótt mér þyki vænt um allt fólkið sem ég er með, eins og á klárlega við núna um helgina.
Ég tók líka frá smá tíma fyrir mig í dag, las og skrifaði á meðan tengdafjölskyldan fór í göngutúr. Það er dýrmætt, en ég þarf sífellt að passa mig á að halda réttu jafnvægi. Vera með, því mér er svo eðlislægt að grafa mig bara ofan í bók og vera andlega fjarverandi. Þetta er undarlegt hugarástand, og erfitt að útskýra. Kannski tengirðu við þetta, lesandi kær. Kannski ekki.
Svo lenti ég í því síðdegis, þegar ég fór sjálfur í stuttan göngutúr, að ein krían gerðist sérstaklega aðgangshörð og goggaði nokkrum sinnum í höfuðið á mér. Þá kom til góða að vera með derhúfu og hettu á höfðinu. Ég heyrði bara létt tif, hún komst aldrei að mér til að valda skaða. Sú var aðgangshörð, samt. Kannski fer ég á sömu slóðir á morgun og heimta rematch. Mæti með golfkylfu eða prik og býð henni birginn! Það þarf að sýna þessu illfygli hvar Davíð keypti ölið.
Þar til næst.