Kæri lesandi,

enn heldur Verslunarmannahelgin 2020 áfram. Í ár var öllum útihátíðum aflýst og ansi mörg sem vön eru að fara eitthvað um hverja versló ákváðu að vera heima. Það var því við hæfi að við innipúkarnir úr Hafnarfirði, sem njótum þess yfirleitt að vera heima hjá okkur eða í bústað fyrir austan fjall, skulum hafa farið á Snæfellsnesið og túristast aðeins akkúrat í ár.


Í morgun sat ég á veröndinni fyrir utan svefnskálann og naut kyrrðarinnar. Ég rótaði í fylgsnum hugans, opnaði skúffur og kíkti bak við dyr, en pælinguna góðu um bókina sem ég gleymdi í gær, hana fann ég alls ekki. Ojæja.


Við keyrðum hringinn í kringum jökulinn í dag. Sáum dyr djöfulsins frá öllum hliðum, eða reyndum það öllu heldur því jökullinn er hulinn skýjum og hefur verið alla helgina. Stelpunum finnst frekar súrt að hafa ekki fengið að sjá snævi þaktan tindinn í allri sinni dýrð á þremur dögum hérna, en það er bara eins og það er. Maður fær ekki allt í þessu lífi. Við keyrðum frá Arnarstapa og vesturfyrir, í gegnum þjóðgarðinn til Hellissands og Rifs og þaðan áfram til Ólafsvíkur. Þetta voru frekar dauð pleis, ekkert í gangi enda heimafólk sennilega bara inni hjá sér og ekkert húllumhæ á torgum.

Í Ólafsvík hitti ég fyrrum samstarfsaðila og kastaði kveðju á hann. Hann tilkynnti mér hróðugur að hann væri kominn með nýtt áhugamál sem ætti hug hans allan (áður komst fátt annað en fótboltaáhorf að). Hann er skotveiðimaður, sagði hann stoltur og rétti úr sér. Sagðist fara árlega til Afríku til að skjóta dýr. Svo ljómaði hann allur og sagði, “í fyrra skaut ég minn fyrsta gíraffa og annan nashyrning.” Ég hefði eflaust átt að segja eitthvað, mér detta milljón hárbeitt andmæli í hug núna en ég varð kjaftstopp við að heyra þetta svo að ég hálf flýtisleit samtalinu og gekk í burtu, álútur. Hvers konar aumingi þarf að ferðast um hálfan hnöttinn til að drepa friðsælar grænmetisætur? Hvernig væri að skella sér bara í golf, félagi? Djöfulsins siðblinda.


Frá Ólafsvík fórum við upp og yfir skarðið til suðurs. Þar er verið að ganga frá nýja veginum svo að við fengum að skrölta upp óheflaða gamla veginn á þrjátíu kílómetra hraða. Á toppnum tók malbikið við og ég andaði léttar, franska ljónið okkar lifði af gatasigtið Ólsaramegin. Á leiðinni út á Arnarstapa stoppuðum við og gengum upp í fjallshlíðina við Rauðfellsgjá. Það var mjög gaman. Við gengum alla leið inn í gjána, inn í fjallið hreinlega, en sáum hvorki álfa né tröll. Hér er mynd af göngugarpi:

Þar til næst.