Kæri lesandi,

Verslunarmannahelginni 2020 er lokið. Við erum komin aftur heim eftir keyrslu í frekar léttri umferð í dag. Ég man allavega ekki eftir svo þægilegri keyrslu heim á mánudegi eftir versló. Vissulega var þétt röð bíla frá Borgarnesi og í bæinn, en um leið og við komum niður Ártúnsbrekkuna og beygðum í vestur til Hafnarfjarðar var nánast enginn á veginum. Það var frekar skuggalegt, mér leið eins og ég væri að keyra heim um miðja nótt, frekar en síðdegis á mánudegi.

Við gerðum í raun lítið annað í dag en að ganga frá gistihúsinu okkar litla og skila því af okkur, fórum svo niður í stóra hús til að hjálpa til við þrif og tiltekt þar og pakka mat niður í skottið. Í hádeginu lögðum við svo af stað og vorum komin heim fyrir fjögur. Reyndar þurftum við að stoppa í tæpa klst í Borgarnesi af því að yngri dóttir mín varð bílveik og ældi um leið og við stoppuðum þar. Hún þurfti ný föt og slíkt. Þegar við komum heim fylgdum við gullnu reglunni okkar, að ráðast strax í að ganga frá öllu inn úr bílnum á sinn stað, af því að það er milljón sinnum þægilegra að gera það strax og vera búin en að nenna því ekki og þá bara situr draslið í ganginum fram eftir viku. Svo stökk ég niður á N1 með bílinn og renndi honum í gegnum snertilausa þvottastöð.

Restin af deginum hefur svo liðið í algjöru móki, einhver ferðaþreyta hefur gripið um sig meðal okkar allra svo að stelpurnar eru steinsofnaðar fyrir allar aldir og við Lilja röltum um þögult og myrkvað húsið eins og uppvakningar. Ég ætla bara uppí með góða bók þegar ég er búinn að blogga og stefni á að sofna fyrir ellefu.


Hápunktur ferðarinnar var eiginlega í gær þegar ein frænkan kveikti á græjunum í bíl sínum og við sátum í brekkunni fyrir neðan stóra húsið á Stapanum og sungum brekkusöng með Ingó Veðurguði. Fyrr um kvöldið fórum við og borðuðum á pizzeríunni á Arnarstapa og röltum svo upp í efra hverfi þar sem einhverjir framtakssamir heimamenn höfðu hlaðið í litla brennu:

Svo var það brekkusöngurinn. Ég varð hálf meyr, þetta var bæði gaman og dásamlegt og sérstaklega fannst okkur merkilegt þegar Ingó leiddi okkur í gegnum „Ég er kominn heim“ og við bókstaflega sáum jökulinn loga:

Dásamlegt.

Verslunarmannahelgin 2020 var frábær og eftirminnileg. Ég er tilbúinn til að hanga heima hjá mér út ágúst. Bring on the quarantine!

Þar til næst.