Kæri lesandi,
eitt af mörgu sem ég skil ekki við mannslíkamann er hvernig ég get sofið vel og lengi og samt vaknað dauðþreyttur. Ég geispaði alla leið suður með sjó í morgun, á meðan bíllinn barðist í gegnum hellirigningu. Nú sit ég við skrifborðið mitt og held áfram að geispa. Loftljósið ræðst á augnhimnur mínar, öll hljóð í rýminu hljóma eins og þau séu handan við lokað gler. Líkaminn er skakkur. Mér líður eins og ég þurfi að fara aftur að sofa, en ég veit að sú er ekki raunin. Ég skil þetta ekki.
Í gær sprakk sprengja við höfnina í Beirút í Líbanon, nálægt miðbæ þessarar þéttbýlu borgar. Tala látinna hækkar, er nú komin í þriggja stafa tölu, og fjölmargir eru særðir og slasaðir, fólk er heimilislaust og eymdinni virðast engin takmörk sett. Við horfðum öll á myndböndin, sáum hvernig eldurinn blossaði í flugeldaverksmiðju og flugeldar sprungu um allt, áður en eldurinn náði tökum á einhverju stærra og meira. Nýjustu fréttir herma að einhverjir aðilar hafi geymt hátt í þrjú þúsund tonn af ótryggðu nítróglýseríni í vöruskemmu á hafnarsvæðinu, og þegar eldurinn hafi náð í nítróið hafi sprengingin verið svo kraftmikil að hún mældist allt að 3,5 á Richter og jafnaði byggingar við jörðu í allt að hundrað metra radíus. Þetta var ótrúlegt. Aumingja fólkið.
Í kjölfarið hugsaði ég um eðli atburða. Sumir atburðir hafa framhaldslíf, ef svo mætti kalla. Það er, þeir halda áfram. Hryðjuverk eru þannig, svo að dæmi sé tekið. Þegar atburðurinn skelfilegi er yfirstaðinn er áfram hægt að fjalla um framvindu málsins, af því að því er ekki lokið. Það þarf að finna sökudólg, einhver lýsir yfir ábyrgð, við smjöttum á því hver gerir svona og hvers vegna og fylgjumst með þegar yfirvöld reyna að koma höndum yfir ábyrga aðila. Þetta er atburðarás.
Aðrir atburðir, eins og slys eða þessi sprenging í Beirút í gær, hafa hins vegar takmarkað framhaldslíf, takmarkaða getu til að halda athygli fólks. Atburðarásin tók nokkrar sekúndur. Við sáum myndböndin, sjokkeruðumst, fylgdumst með fréttum án þess að geta mikið gert til að hjálpa úr fjarlægð. Og af því að það er engin frekari framvinda, önnur en fréttir af hækkandi tölum látinna, þá munum við missa áhugann. Um leið og næsti atburður á sér stað munum við gleyma Beirút. Sorrý, Líbanon. Þetta er ekkert persónulegt. Við höfum bara ekki næga athyglisgáfu til að dvelja of lengi við ykkar þjáningu. Fellibylirnir eru að byrja og Donald Trump er alveg örugglega að fara að segja eitthvað heimskulegt í dag. Við höfum í mörg horn að líta.
Þetta var dauðþreytta pæling dagsins. Það er mögulegt að ég hafi ekki skrifað stakt orð af viti hér að ofan, að ég muni lesa þetta með skýrari augum í kvöld eða á morgun og hrylla við að ég skuli hafa leyft mér að deila óráði mínu með þér, lesandi kær. Kemur í ljós.
Þar til næst.