Kæri lesandi,
myndin hér að ofan er ekki sú sama og myndin sem ég setti inn í síðustu færslu. Þær eru keimlíkar, en teknar með tveggja daga millibili. Svona hefur Sandgerði litið út nær alla vikuna. Skýjað og blautt, ágætis veður svo sem og hlýtt en það er ansi haustlegt umhverfis skrifstofuna mína. Veðrið er svipað í Hafnarfirði. September nálgast.
Í dag eru 52 vikur síðan ég fótbrotnaði. Klukkan rúmlega níu á föstudeginum 9. ágúst 2019 sagði ég brandara, á tali við tvo menn á hellulagðri gangstétt niðri á Hafnarfjarðarhöfn. Brandarinn náði hámarki sínu með látbragði. Ég sagði, „og svo kipptist hann allur við!“ og stökk upp í loftið til að leggja áherslu á orð mín. Þegar ég lenti aftur kom hægri fóturinn niður á samskeytum mishárra hellna svo að ysta ristarbeinið lá í lausu lofti og bar allan þungann. Ég heyrði háværan smell og vissi samstundis að eitthvað hefði brotnað.
Við tók tveggja mánaða kyrrseta þar sem ég var settur í gifs upp að hné. Ég mátti ekkert hreyfa liðamótin við ökklann af því að brotið var á viðkvæmum stað og varð að fá kyrrstöðu á meðan það gréri. Tveimur mánuðum seinna var beinið ekki enn byrjað að gróa, eitthvað virtist standa því fyrir dyrum svo að læknirinn lét fjarlægja gifsið og sagði mér að fara og hreyfa fótinn. Ég gerði það, staulaðist út á hækjum og gifslaus, með stirð liðamót vegna hreyfingarleysis, vöðvarýrnum og flaksandi húð um allan fótinn. Tólf dögum seinna, seint í október, var ég hættur að nota hækju og fann fótinn styrkjast með hverjum degi. Nokkrum dögum seinna fór ég í myndatöku sem sýndi að brotið var loksins að gróa. Þá kom á daginn að kyrrsetan hafði hindrað blóðflæði að brotinu en um leið og ég fór að stíga í fótinn og hreyfa mig fór sárið að gróa. Í desember fór ég svo í aðra myndatöku sem sýndi nærri því fullgróið bein og í janúar var ég loks útskrifaður og mátti byrja að hreyfa mig á ný.
Það er skrítið að hugsa til þessa ferlis núna. Það hefur svo margt gerst síðan ég var útskrifaður. Ég skrifaði mikið um beinbrotið síðasta vetur hér á síðuna, þetta var það stærsta sem hafði komið fyrir mig í mörg ár og að vissu leyti fín vakning, því ég var ekki í besta líkamlega ástandinu þegar ég brotnaði og ætlaði aldeilis að spýta í lófana þegar ég kæmist á fætur. Sem ég og gerði, í tæpa tvo mánuði. Svo barði kórónaveiran að dyrum og allt skall í lás, og átakið mitt fór til fjandans. Sumarið hefur farið í að ná mér hægt og rólega aftur á strik.
Þannig að nú, 52 vikum eftir brot, er ég ekki kominn jafn langt og ég lofaði sjálfum mér þegar ég var útskrifaður. En á móti kemur að ég er heill heilsu, get hoppað á fætinum og klifrað upp í gjár og gert hvað sem mér sýnist. Það er ekki sjálfgefið, og ég minnist þess í dag hvað ég örvænti í vetrarbyrjun í fyrra þegar það var hreint ekki víst hvort ég myndi enda með ónýtan fót eða þurfa í skurðaðgerð. Ég er heppinn að vera þar sem ég er í dag.
Nýlega hef ég lesið tvær bækur eftir bandaríska höfundinn Blake Crouch. Fyrst las ég í vor nýjustu bók hans, Recursion, sem er mögulega besta bók sem ég hef lesið í ár. Í sumar las ég svo næstnýjustu bók hans, þá sem sló í gegn og gerði hann að stóru númeri vestan hafs, Dark Matter. Hún er mjög góð líka, að vissu leyti finnst mér hún vera undanfari Recursion, enda er plottið í þeim báðum keimlíkt en mér finnst hann einfaldlega gera það allt betur í Recursion. Ég er allavega mjög hrifinn af þessum bókum, og bíð spenntur eftir að sjá hvað hann skrifar næst … en vona um leið að hann reyni ekki í þriðja sinn við keimlíka söguþráðinn. Ég mæli allavega heilshugar með Dark Matter og Recursion, en ef þú vilt bara lesa aðra þeirra, lestu þá Recursion.
Þar til næst.