Kæri lesandi,

í dag gerðist fátt. Mér tókst að eiga hálfgerðan letidag, gekk um gólf og rúntaði götur eins og heimsins mesta hrúgald. Ég hafði ákveðið í gær að ég þyrfti á einum slíkum degi að halda, og stóð við það. Ég gerði lítið af viti í dag.

Ég fór þó eina nauðsynjaferð fyrir hádegi, í SportsDirect og Elko í Lindunum. Hjá því varð ekki komist og ég ákvað að fara snemma til að lenda í minna af fólki. Það gekk ágætlega. Ég gekk inn með grímu, eina af þessum pappírsgrímum sem fást í apótekinu. Allt starfsfólk beggja verslana var með grímur og svo sá ég einn eldri mann í SD með grímu, auk sjálfs mín. Aðrir voru ekki með grímur og ég fékk mörg skrítin augnaráð. Er það að furða að við séum að dreifa veirunni í þessu samfélagi? Ef hinn meðal Íslendingur ætlar að haga sér eins og steinsofandi fáviti held ég áfram að ganga um með grímur og hanska. Þetta er ekkert gamanmál, það skiptir mig meira máli að fá ekki Covid19 heldur en að vera töff útlits.

Þegar ég kom heim var konan mín svo búin að sauma á mig flottari grímu. Ég mun ganga með hana framvegis, enda lít ég út eins og alvöru illmenni með þessa vígalegu grímu (sjá neðar).

Að öðru leyti var ég heima hjá mér og latur, þar til í kvöld þegar ég hitti vin minn. Við fórum saman á Hamborgarabúlluna (nærri því tóm) og í bíó. Þar eru takmörk í gildi og þau selja bara í þriðja hvert sæti í VIP-sal, þannig að við enduðum í lúxussætum með heila sætaröð fyrir okkur. Spes. Og aðeins fimm aðrar manneskjur í salnum, dreifðar langt frá okkur. Ég gaf heimagerðu andlitsgrímunni að mestu frí við það tækifæri, en setti hana þó upp fyrir eftirfarandi mynd.

Við sáum spennumyndina Unhinged, með Russell Crowe og Caren Pistorius. Hún var æsispennandi. Crowe er magnaður í hlutverki Kommentakerfisins, nei fyrirgefðu karlmanns sem telur allan heiminn á móti sér og hatar allar konur af því að konan hans fór frá honum. Fyrst og fremst leikur hann samt persónu sem skortir samkennd, er ófær um að sjá heiminn frá sjónarhorni annarra. Myndin hefst á flottu innslagi með atriðum úr raunheimum, dæmum um ‘road rage’, þar sem fólk urlast undir stýri og stofnar hvort öðru í hættu bara af því að ‘einhver’ vogaði sér að svína á þau eða keyra of hratt eða eitthvað. Það innslag gefur tóninn, minnir okkur á að þessi skáldaða saga um ímyndaðar persónur er mjög nálægt raunveruleikanum. Óþægilega nálægt.

Á morgun ætla ég svo að vera duglegur. Maður tekur aldrei tvo letidaga í röð. Ég veit ekki hvað ég ætla að gera en mér mun hugkvæmast eitthvað fyrir rest.

Þar til næst.